Fótbolti

Steven Gerrard: Ættum ekki að spila á tveggja daga fresti

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Steven Gerrard
Steven Gerrard EPA-EFE/PETER POWELL

Steven Gerrard, þjálfari Aston Villa, hefur eins og aðrir þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni miklar áhyggjur af aukningu í smitum hjá leikmönnum og starfsmönnum liðanna á Englandi. En hann er einnig ósáttur við að þurfa að spila þétt um jólin.

Gerrard var til viðtals á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Burnley sem fram fer í dag. Hann sagði meðal annars:

„Akkúrat á þessum tímapunkti erum við í stöðu til þess að spila leikinn og erum undirbúnir til þess. Þetta er viðkvæm staða og við erum einhvernvegin alltaf að bíða eftir niðurstöðu úr prófunum“.

Gerrard sagði líka að nokkrir í hópnum og starfsliðinu hefðu smitast á síðustu dögum en hann vonaði að það væri ekki að aukast.

„Það hafa komið upp smit hjá starfsliðinu og smit hjá leikmönnum og þetta er vandamál fyrir deildina, við viljum samt allir sama hlutinn og það er að deildin haldi áfram. Ég mun vera í sambandi við Sean [Dyche] og ef eitthvað breytist verðum við í sambandi og deildin þarf að ákveða næstu skref“.

Gerrard er samt ekki ánægður með að þurfa að spila svona þétt um hátíðarnar en það er leikur hjá hans mönnum bæði 26. og 28. desember.

„Að spila á tveggja daga fresti er ekki gott. Þegar þú tekur svo veiruna með inn í reikninginn þá ætti það ekki að gerast. Vonandi sigrar skynsemin í þessu máli“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×