Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, en kirkjan, sem brann til grunna 22. september síðastliðinn, var elsta bygging eyjarinnar, byggð 1867 og var friðuð árið 1990.
Í tilkynningu á vegn stjórnarráðsins segir að Miðgarðakirkja hafi þjónað mikilvægu samfélagslegu hlutverki meðal Grímseyinga og séu íbúar staðráðnir í að reisa nýja kirkju sem geti nýst bæði við helgihald og til menningarviðburða.
„Áætlaður heildarkostnaður við byggingu nýrrar kirkju er um 100 milljónir króna en tryggingabætur nema um 30 milljónum króna. Þá hefur sóknarnefnd Miðgarðakirkju staðið fyrir fjáröflun þar sem þegar hafa safnast um 12 milljónir króna. Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist næsta sumar og að ný kirkja verði tilbúin að utan í september þegar ár verður liðið frá brunanum,“ segir í tilkynningunni.