Þetta er niðurstaða umfangsmikillar breskrar greiningar. Niðurstöðurnar benda sömuleiðis til þess að sú vörn sem bóluefni veiti gegn smiti byrji að veikjast um 15% til 25% tíu vikum eftir örvunarskammt. Þrátt fyrir það er líklegt að vörn gegn alvarlegum veikindum og dauðsföllum sé mun meiri.
Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands segir að þessar fyrstu niðurstöður lofi góðu en afbrigðið geti samt sem áður leitt til þess að mikill fjöldi fólks verði lagður inn á spítala.
Skýrslan rímar við nýleg gögn frá Suður-Afríku, Danmörku, Englandi og Skotlandi sem benda öll til að nýja afbrigðið valdi jafnan vægari veikindum.
Höfundar nýju greiningarinnar skoðuðu öll tilfelli ómíkron og delta sem greinst hafa í Bretlandi frá því í byrjun nóvember og 132 sjúkrahússinnlagnir. Tilkynnt hefur verið um fjórtán dauðsföll meðal fólks með ómíkron innan við 28 dögum eftir sýkingu.
Niðurstöðurnar benda til að þau sem greinist með ómíkron séu 31% til 45% ólíklegri til að fara á bráðamóttöku.
Enn mikil óvissa með eldri aldurshópa
Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands varar þó við því að aukin tíðni og útbreiðsla Covid-19 geti vegið upp á móti vægari veikindum. Faraldurinn er á mikilli uppleið í Bretlandi þar sem met var slegið í dag þegar greint var frá 119.789 nýjum tilfellum Covid-19.
Flestir einstaklingar sem sýkst hafa af ómíkron þar í landi og lagst inn á sjúkrahús eru undir 40 ára aldri. Því ríkir enn óvissa um hvaða áhrif afbrigðið hefur á eldri aldurshópa, að sögn breskra sérfræðinga.