Innlent

Töluvert af börnum í farsóttahúsum yfir jólin

Eiður Þór Árnason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúsanna.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúsanna. Vísir

Tæplega sex þúsund manns verða í einangrun eða sóttkví um jólin og mun hluti þeirra dvelja í farsóttahúsunum yfir hátíðirnar fjarri fjölskyldu og vinum.

Þar eru nú alls 194 í farsóttahúsunum fjórum en húsið á Rauðarárstíg er hægt og sígandi að fyllast. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúsanna, á von á því að ástandið verði strembið um jólin.

„Það er allt að fyllast hjá okkur og margir sem vilja koma til okkar. Því miður sýnist mér að við náum ekki að sinna því öllu en við reynum hvað við getum og þurfum svolítið að forgangsraða þeim sem þurfa svo sannarlega að vera hjá okkur,“ sagði Gylfi í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Töluvert af börnum verður í farsóttahúsunum yfir jólin en nokkur þeirra hafa fengið að fara heim á síðustu dögum. Reynt verður að gera dvöl barnanna aðeins bærilegri á morgun þó einangrunin takmarki mjög það sem er í boði.

Hvernig líður fólki með að vera hérna?

„Veikindi eru ekki mikil sem betur fer eins og er en þau eru fljót að koma. Fólki er brugðið þegar það þarf að yfirgefa heimili og jafnvel fjölskyldu yfir jólin og vera í einangrun en sem betur fer þegar klukkan slær sex á morgun þá færist ró yfir mannskapinn,“ segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×