Sport

Greindist með veiruna klukkustundum eftir að hann féll úr leik á HM í pílukasti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það verður seint hægt að saka Barney um að hafa ekki passað upp á sóttvarnir, en hann var líklega sá eini sem gekk inn á sviðið í Ally Pally með grímu.
Það verður seint hægt að saka Barney um að hafa ekki passað upp á sóttvarnir, en hann var líklega sá eini sem gekk inn á sviðið í Ally Pally með grímu. NESImages/DeFodi Images via Getty Images

Fimmfaldi heimsmeistarinn í pílukasti, Raymond van Barneveld, greindist með kórónuveiruna einungis nokkrum klukkustundum eftir að hann féll úr leik í 64-manna úrslitum gegn Rob Cross á Þorláksmessu.

Van Barneveld, eða Barney eins og hann er yfirleitt kallaður, greindi frá fréttunum á Twitter-síðu sinni í gærmorgunn. Í færslunni segist hann ekki hafa fundið fyrir einkennum á meðan viðureign hans gegn Rob Cross stóð yfir, en eftir að henni lauk var hann andstuttur og fann fyrir hita.

Barney hefur ekki veitt nein viðtöl eftir að hann féll úr leik á mótinu til að reyna að koma í veg fyrir að smita aðra, og þá segist hann hafa verið í sambandi við bæði Rob Cross og PDC varðandi málið.

Árið 2019 hætti Barney í pílukasti eftir slæmt gengi það árið. Hann tók þó pílurnar fram að nýju fyrr á þessu ári og mikil eftirvænting var fyrir endurkomu hans á stóra sviðið í Ally Pally. Hann komst þó ekki lengra en í aðra umferð þar sem að heimsmeistarinn frá árinu 2018 reyndist of stór biti fyrir Hollendinginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×