Fótbolti

Varar Insigne við MLS: „Þetta er ekki alvöru fótbolti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Giovinco og Lorenzo Insigne á æfingu ítalska landsliðsins.
Sebastian Giovinco og Lorenzo Insigne á æfingu ítalska landsliðsins. getty/Claudio Villa

Ítalski fótboltamaðurinn Sebastian Giovinco hefur varað landa sinn, Lorenzo Insigne, við því að fara til Bandaríkjanna. Hann segir að ekki sé spilaður alvöru fótbolti í MLS-deildinni þar í landi.

Insigne, sem er lykilmaður í ítalska landsliðinu, á aðeins hálft ár eftir af samningi sínum við Napoli og hefur verið sterklega orðaður við Toronto. Insigne, sem er þrítugur, er fyrirliði Napoli.

Giovinco þekkir vel til hjá Toronto. Hann lék með liðinu á árunum 2015-19, varð MLS-meistari með því 2017 og er markahæsti leikmaður í sögu þess.

Þegar Giovinco var spurður út í möguleg félagaskipti Insignes til Toronto gaf hann fótboltanum í MLS-deildinni ekki háa einkunn þótt hann hafi kunnað vel við sig vestanhafs.

„Þetta er ekki alvöru fótbolti, þetta er eitthvað annað. Þeir eru með góða innviði og ég myndi taka þessa ákvörðun aftur, sérstaklega fyrir þessi laun. Ég myndi mæla með þessu fyrir alla því við fjölskyldan viljum búa hérna. Þetta er gullfalleg borg,“ sagði Giovinco.

Hann segir að eigendur Toronto vonist til að koma Insignes fái fólk til að mæta aftur á völlinn.

„Undanfarin tvö ár hefur fólk hætt að mæta á völlinn. Þar hefur verið tómlegt um að litast. Þegar ég var að spila voru þrjátíu þúsund manns á leikjum. Ég fór á leik um daginn og þá voru í mesta lagi tvö þúsund manns á vellinum,“ sagði Giovinco. „Ég skil að eigendurnir vilji fá Insigne því það er fjölmennt ítalskt samfélag í Toronto.“

Giovinco varaði svo Insigne við að ef hann myndi fara til Bandaríkjanna myndi það veikja stöðu hans í landsliðinu. Sjálfur lék Giovinco ekki landsleik eftir að hann byrjaði að spila í MLS-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×