Innlent

Erla Bolla vann orrustu: „Ég fer ekki að hætta núna“

Óttar Kolbeinsson Proppé og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Erla fagnar sigri í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Erla fagnar sigri í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi rétt í þessu úr gildi úrskurð endurupptökunefndar sem hafnaði beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku máls hennar árið 2017. Erla Bolladóttir kallaði „yes!“ þegar niðurstaðan var kunngjörð í dómsal í morgun. Svo streymdu tárin.

Erla var ein sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Hún var dæmd í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa í samráði við þá Kristján Viðar Júlíusson og Sævar Marínó Ciesielski sakað fjóra menn, sem kenndir eru við skemmtistaðinn Klúbbinn, ranglega í málinu. Þeir sátu í kjölfarið í gæsluvarðhaldi í yfir 100 daga. 

Rætt er við Erlu og Ragnar Aðalsteinsson, lögmann hennar, í klippunum hér að neðan.

Öll mál nema Erlu fóru aftur fyrir dómstóla 2017

Endurupptökunefnd ákvað árið 2017 að mál allra sakborninga í málunum skyldu fara aftur fyrir dómstóla nema mál Erlu. Taldi endurupptökunefndin að ekki væru uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku máls hennar þar sem ekki lægju fyrir gögn sem bentu til þess að hún hafi verið beitt þrýstingi er hún bar mennina fjóra röngum sökum.

Hún ákvað í kjölfarið að höfða einkamál gegn ríkinu til að fara fram á ógildingu þessarar ákvörðunar endurupptökunefndarinnar. 

Erla hefur haldið því fram í gegn um árin að lögreglumenirnir sem hafi yfirheyrt hana hafi beitt hana þrýstingi og snerist ágreiningur í málinu sem kveðið var upp í dag meðal annars um það hvort lögreglan hefði fyrst bendlað Klúbbsmenn við málið áður en Erla og aðrir sakborningar gerðu það í skýrslutökum.

Erla Bolladóttir fagnar sigri fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.Vísir/Vilhelm

Frumrannsakendur Geirfinnsmálsins í Keflavík gáfu báðir skýrslu fyrir dómi í síðasta mánuði og sögðu þeir að Klúbburinn hafi strax verið kominn inn í umræðunma í málinu vegna þess að Geirfinnur hafi verið þar stuttu fyrir hvarfið. 

„Gríðarstór áfangi“

Aðspurð um fyrstu viðbrögð sagði Erla þau vera mjög tilfinningaleg.

„Þetta er búið að vera ansi lengi á leiðinni og er auðvitað ekki búið enn. En þetta er gríðarstór áfangi,“ sagði Erla.

„Ég get ekki lýst því hve mikill léttir þetta er. Ég treysti engu fyrr en það er komið. Þetta er þó komið. Ég er bjartsýn á framhaldið. Segi bara, gangi þeim vel sem vilja þvælast fyrir réttlætinu úr því sem komið er.“

Erla Bolladóttir þurrkar tárin í dómnum í morgun.Vísir/Vilhelm

Nú sé fram undan að krefjast endurupptöku á málinu, á ásættanlegum forsendum eins og hún orðar það. Hún er tilbúin í frekari baráttu sem hefur staðið yfir áratugum saman.

Bjartsýn á framahaldið

„Ég fer ekki að hætta núna.“

Hún segist bjartsýn á framhaldið.

„Já, það eru einhverjir vindar í loftinu sem segja mér það.“

Erla mætti í dómsal með dóttur sinni og tengdasyni auk lögmanna sinna. Hún segir erfitt að svara því hvort niðurstaðan hafi verið í takti við það sem hún bjóst við.

Sigurreifar mæðgur í morgun.Vísir/Vilhelm

„Já og nei. Ég hafði þá tilfinningunni í málflutninginum öllum. En mín reynsla í áratugi af stjórnvöldum og dómsmálayfirvöldum er þannig að ég gat alls ekki treyst neinni tilfinningu.“

Erla gefst auðvitað ekki upp

„Þetta eru auðvitað stórkostleg tíðindi fyrir umbjóðanda minn Erlu Bolladóttur. Hún hefur barist hetjulega árum saman og hefur átt mikinn þátt í þeim úrlausnum sem gengið hafa þó hennar mál hafi í sjálfu sér gengið illa, allt til þessa,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu.

„Ég gat auðvitað búist við hverju sem er. Það er oft í dómsmálum hægt að kveða upp dóma með eða á móti. Í þessu tilviki þá kom mér þetta satt að segja ekki á óvart. Það var margt sem kom fram í málflutningi og yfirheyrslum yfir vitnum sem benti til þess að þetta gæti farið svona.“

„Nú stendur ríkisstjórnin frammi fyrir því að hún tapar hverju málinu á fætur öðru og hlýtur að hugsa sinn gang og velta því fyrir sér hvort hún vilji ekki ljúka þessum málum öllum í stað þess að halda barátunni við borgarana áfram í hið óendanlega. Málin hafa þegar staðið í 46 ár trúi ég og enginn ástæða til að halda áfram. Við vitum allt um málið sem við þurfum að vita og bara smáatriði að komast að niðurstöðu um sátt.“

Ragnar trúir ekki öðru en að ríkisstjórnin hugsi sinn gang áður en málinu verður áfrýjað til Landsréttar, þaðan til Hæstaréttar o.s.frv.

„Ég sé ekki að ríkið þurfi á því að halda að tapa málum eða sýna vald sitt með sífelldum dómsmálum við borgarana.“

Möguleikarnir séu auðvitað þeir að sættast við ríkisvaldið. Að öðrum kosti þurfi að fá viðurkenningu á réttinum til endurupptöku og reka svo það mál fyrir Hæstarétti.

„Það verður tímafrekt og erfitt og allt það. En Erla Bolladóttir gefst auðvitað ekki upp. Hún heldur áfram þar til fullur sigur er unninn.“


Tengdar fréttir

Erla enn með ábyrgðina á herðum sér

Erla Bolladóttir á enn eftir að fá mannorð sitt hreinsað. Tilfinningarnar eru blendnar eftir sýknudóm í gær. Hún vonast enn til að Hæstiréttur gangi lengra, lýsi sakleysi þeirra yfir og gangist við því sem gerðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×