Bannið tók gildi í gær og nær til efna sem Evrópusambandið segir geta valdið krabbameinum og öðrum heilsufarsvandamálum. Sambandið segir bannið munu draga úr tilfellum þar sem húðflúrun veldur ofnæmisviðbrögðum.
Húðflúrlistamenn segja hins vegar að erfitt verði að finna blek nú þegar bannið hefur tekið gildi og þá sé hætt við því að það blek sem kemur í staðinn verði litadaufara en það sem hefur verið notað hingað til.
Bannið komi ofan á þá erfiðleika sem húðflúrarar hafa mætt í kórónuveirufaraldrinum, þar sem sóttvarnaaðgerðir hafa sett rekstrinum töluverðar skorður.
Evrópusambandið áætlar að um 12 prósent íbúa Evrópu séu með húðflúr. Fjöldi húðflúraðra er talinn vera einn af hverjum fimm í Þýskalandi og þá áætla yfirvöld í Belgíu að landsmenn fái sér samtals um hálfa milljón nýrra húðflúra á ári hverju.
Umrætt bann var samþykkt árið 2020 og nær til um fjögur þúsund efna, þeirra á meðal ísóprópanól alkóhól, sem er algengt efni í húðflúrbleki. Forsvarsmenn Evrópusambandsins segja hins vegar mögulegt að nota önnur efni í staðinn.
Efnastofnun Evrópusambandsins segir efnin gera blekið hættulegt, þar sem þau geti valdið ofnæmi, krabbameini og jafnvel genabreytingum.
Þýski húðsjúkdómasérfræðingurinn Wolfgang Baumler sagði í samtali við Die Zeit að hann og kollegar hans hefðu gert könnun meðal 3.400 einstaklinga árið 2010 og að tveir þriðju hefðu sýnt einhvers konar ofnæmisviðbrögð eftir húðflúrun og að sex prósent hefðu enn fundið fyrir þeim nokkrum vikum síðar.
Húðflúrlistamenn segja hins vegar ekkert liggja fyrir sem sannar að húðflúr séu krabbameinsvaldandi og þeir óttist að bannið verði til þess að fleiri húðflúr verði gerð utan laga og reglna.
Frekari takmarkanir taka gildi eftir ár, sem munu takmarka mjög notkun blás og græns.