Erlent

Fyrr­verandi yfir­maður dönsku leyni­þjónustunnar í haldi vegna leka­máls

Atli Ísleifsson skrifar
Verði Lars Findsen fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi.
Verði Lars Findsen fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi. Getty

Fyrrverandi yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa lekið leynilegum upplýsingum sem taldar eru geta skaðað hagsmuni danska ríkisins.

Greint var frá því í síðasta mánuði að fjórir fyrrverandi og núverandi starfsmenn leyniþjónustu hersins og lögreglunnar hafi verið handteknir vegna málsins. Í dag var nafnleynd aflétt í máli þess sem enn er í haldi. Er um ræða Lars Findsen sem var yfirmaður leyniþjónustu danska hersins um sex ára skeið.

Leynd hvílir enn um hvað hinn 57 ára Findsen sé nákvæmlega grunaður um, en DR segir frá því að hann eigi að hafa lekið trúnaðargögnum til fjölmiðla. Fram til þessa hefur verið bannað að birta nafn þess sem er í haldi, en dómstóll aflétti því fyrir hádegi. Að sögn dómara var það Findsen sjálfur sem krafðist þess að leyndinni yrði aflétt.

Danskir fjölmiðlar segja frá því að Findsen sé grunaður um eitthvað sem falli undir flokkinn „landráð“. DR segir að leyniþjónustan hafi fylgst með Findsen um nokkurt skeið og við rannsókn málsins hafi hún meðal annars hlerað símtöl Findsen.

Findsen lét af störfum ásamt tveimur öðrum háttsettum mönnum innan leyniþjónustunnar árið 2020 eftir að í ljós kom að þeir hafi mögulega brotið lög og haldið upplýsingum frá aðilum sem hafa eftirlit með stofnuninni.

Verði Findsen fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×