Martin Reynolds, aðstoðarmaður Boriss Johnson, sendi starfsmönnum ráðuneytisins tölvupóst þar sem þeim var boðið í garðpartí „til þess að nýta veðurblíðuna.“ Fréttastofa ITV hefur nú fengið umræddan tölvupóst afhentan en mikið hefur verið fjallað um málið frá því það kom fyrst upp á föstudag.
Yfirskrift tölvupóstsins er „Fjarlægðartakmarkaðir drykkir! (FORMLEGT-VIÐKVÆMT-NR. 10 EINGÖNGU). Greinilegt er að um háleynilegt partí var að ræða.
„Eftir gríðarlega annasaman tíma datt okkur í hug að það væri gott að nýta dásamlega veðrið og hittast í fjarlægðartakmarkaða drykki í garðinum á Nr. 10. Vinsamlegast komið upp úr klukkan sex og komið með eigið áfengi!“
Ljóst er að ætlun ráðuneytisins hafi staðið til að fólk virti tveggja metra fjarlægðartakmarkanir.
Samkvæmt heimildum ITV mættu um fjörutíu starfsmenn í partýið, þar á meðal Boris Johnson og eiginkona hans Carrie.
Tveir máttu hittast með tveggja metra bili
Sama dag og garðpartýið í Downingstræti 10 fór fram tilkynnti þáverandi menningarmálaráðherra Englands, Oliver Dowden, að einungis tveir mættu koma saman utandyra, að því gefnu að tveggja metra reglunni væri fullnægt.
Mánuði seinna voru samkomur sex manna utandyra leyfðar með sömu takmörkunum. Því er ljóst að samkoma starfsmanna forsætisráðuneytisins var í hrópandi ósamræmi við þágildandi sóttvarnaaðgerðir.