Um átta mánuðum eftir að myglusveppurinn fannst, var búið að flytja alla starfsmenn bankans frá Kirkjusandi og í önnur húsnæði.
Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um myglusvepp og áhrif hans á vinnustaði.
Árin þegar að myglusveppurinn spratt fram
Það var í mars árið 2016 sem fjölmiðlar fluttu fyrst fréttir af því að myglusveppur hefði fundist í húsakynnum Íslandsbanka í Kirkjusandi.
Þótt það kunni að hljóma stutt síðan, hefur mikið breyst í umræðunni um myglusvepp síðan þá. Vandamálið er orðið þekktara og æ oftar heyrast fréttir um rakaskemmdir og myglu í fyrirtækjum og stofnunum.
Og þar virðist enginn óhultur.
Sem dæmi um vinnustaði sem fjölmiðlar hafa birt fréttir um að hafa fundið myglu eru fjölmargir skólar. Til dæmis Hagaskóli, Laugalækjaskjóli, Tækniskólinn og Fossvogsskóli.
Þá hefur fundist mygla hjá fjármálaráðuneytinu og velferðaráðuneytinu.
Á Bugli og á Landspítalanum.
Á Alþingi.
Í sex húsum Landsbankans.
Í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur.
Og á fleiri stöðum.
Í umfjöllun Atvinnulífsins í gær sagði Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur hjá Eflu, meðal annars:
Þeir vinnustaðir sem hafa staðið í þessum vanda hafa nefnt að rakaskemmdir og veikindi starfsmanna af þeim völdum sé ein stærsta mannauðsáskorun þeirra fyrirtækis, fyrr og síðar. Það eru í einhverjum tilfellum orð að sönnu og því mikilvægt að það séu til viðbragðsferlar.“

Góðu ráðin: Að takast á við myglusvepp á vinnustað
Atvinnulífið fékk Hafstein Bragason, mannauðstjóra Íslandsbanka, til að miðla af reynslu bankans og gefa öðrum stjórnendum góð ráð ef myglusveppur finnst.
Það fyrsta sem Hafsteinn nefnir er mikilvægi þess að vinnustaðurinn ráðist í markvissar aðgerðir um leið og niðurstöður liggja fyrir um myglusvepp.
„Við stofnuðum stýrihóp með starfsfólki úr ólíkum einingum bankans eins og mannauðssviði, rekstrardeild og áhættustýringu en þessi stýrihópur hafði jafnframt viðtækt umboð til að bregðast við. Umfang vandans var skilgreint og aðgerðaáætlun sett fram.“
Starfsfólk var upplýst um stöðu mála.
Við héldum fjölda fræðslufundi um áhrif myglu á heilsu starfsmanna og tíðir starfsmannafundir voru haldnir.
Við héldum úti vikulegum fréttapósti þar sem staða mála var kynnt miðað við aðgerðaáætlun.
Við fórum í öflugt samstarf við fagaðila, annars vegar Vinnuvernd og hins vegar Eflu verkfræðistofu.“
Hafsteinn segir samstarfið við Vinnuvernd hafa snúið að heilsu og vellíðan starfsfólks. Sá hluti hafi falið í sér atriði eins og fræðslu, heilsuskimanir og almenna læknisþjónustu.
Samstarfið við Eflu tengdist hins vegar húsnæðinu sjálfu þar sem ráðast þurfti í aðgerðir eins og loftgæðamælingar, ítarlegar sýnatökur, hreinsunaraðgerðir og fleira.
Þá segir Hafsteinn reynslu bankans vera þá sömu og fram kom í viðtali við Sylgju Dögg í gær: Ekki allir veikjast og ekki allir finna fyrir einkennum.
En sumir gera það þó.
Það var auðvitað mjög einstaklingsbundið en flest starfsfólk sem fann fyrir einkennum náði sér fljótlega þegar það fóru úr mygluaðstæðum en því miður voru einstaklingar sem fundu fyrir langvarandi einkennum.“
Hafsteinn segir krísustjórnun bankans hafa haft heilsu og vellíðan starfsfólks að leiðarljósi. Mikilvægt hafi verið að upplýsingaflæði væri stöðugt og fólk fullvissað um að faglega væri staðið að öllu.
Þá hafi skipt máli að vinna samkvæmt áætlun.
„Það er mikilvægt í krísu sem svona að vinna eftir „áttavita“ sem hjálpar við að stilla kúrsins í ólgusjó verkefna og áreitis.“
Loks segir Hafsteinn mikilvægt að stjórnendur leggi við hlustir, ef starfsfólk nefnir einkenni.
„Ég tel mikilvægt að láta starfsfólk njóta vafans, ef starfsfólk finnur til einkenna að þá færa þau strax úr aðstæðum. Heilsa og vellíðan starfsfólks er forgangsatriði.“