Stefán Árni Pálsson, þáttastjórnandi, spurði þá Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson hvort eitthvað hefði komið á óvart í sigri Íslands á Portúgal.
„Það kom á óvart að við áttum aldrei einhvern kafla sem var lengri en ein eða ein og hálf mínúta þar sem við vorum að spila illa. Það kom aldrei uppáhalds kaflinn hans Gaua (Guðjóns Vals Sigurðssonar) þessi „slæmi kafli.“ Hann kom bara aldrei í leiknum. Heilt yfir var þetta stöðug og góð frammistaða allan leikinn,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson og hélt áfram.
„Svo voru þetta einhver tvö áhlaup. Á 20. mínútu tökum við þrjú í röð, náum þessu upp í fjögur mörk. Þeir koma aðeins til baka og svo aftur á 38. mínútu siglum við þessu upp í sex mörk. Það kom aldrei neitt bakslag.“
„Ég get alveg tekið þetta undir þetta. Ef maður á að reyna að vera klókur og bæta einhverju við þá kom það mér smá á óvart hvað við vorum flottir. „Svægið“ í Ómari Inga (Magnússyni) og öllu liðinu. Það kom mér smá á óvart - svona miðað hvað maður hefur séð áður - hvað þeir voru flottir, sem er jákvætt. Maður þorir aldrei að vona of mikið, maður heldur svo mikið með þeim. Það var æðislegt,“ sagði Róbert Gunnarsson um sigurinn gegn Portúgal.
„Svo kom það mér skemmtilega á óvart þegar Viktor Gísli (Hallgrímsson, markvörður) kom inn á. Hann stóð sig virkilega vel. Ég held að þetta sé auðveldara fyrir hann, að vera númer tvö og koma inn á,“ bætti Róbert við.
„Þegar þessi slæmi kafli er alveg að fara koma hjá okkur þá varði Viktor Gísli algjört dauðafæri. Þar kláraðist leikurinn,“ sagði Stefán Árni að endingu um „slæma kaflann“ sem kom aldrei.
Þáttinn í held sinni má hlusta á hér að neðan en umræðan varðandi skort á „slæma kaflanum“ hefst eftir rúmar 26 mínútur.