Menning

„Skemmtileg pörun á bréfalúgu og glannalegri staðhæfingu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Innblásturinn er óræður hjá listamanninum Baldvini Einarssyni.
Innblásturinn er óræður hjá listamanninum Baldvini Einarssyni. Vilhelm Gunnarsson/Vísir

Listamaðurinn Baldvin Einarsson var viðmælandi í síðasta þætti af KÚNST.

Baldvin er búsettur í Antwerp, Belgíu og kláraði þar mastersgráðu í myndlist við Royal Academy of Fine Arts. Hann er nú með sýninguna Op í D sal Hafnarhússins sem lýkur á morgun, sunnudag 23. janúar, en sýningin einkennist af ýmsum valmöguleikum staðsettum fyrir ofan op sem minna á bréfalúgur.

„Ég var að hjóla og ég sá bréfalúgu. Það stóð eitthvað svona „No Fear“ fyrir ofan bréfalúguna og mér fannst það skemmtileg pörun á bréfalúgu og glannalegri staðhæfingu,“ segir Baldvin.

Hann segir erfitt að staðsetja nákvæmlega hvaðan innblásturinn kemur í listsköpun sinni. Eitthvað í umhverfinu geti til dæmis gripið hann og svo komið fram sem hugmynd síðar en hjá Baldvini spilar teikningin veigamikið hlutverk í að koma hugmyndunum áleiðis.

„Oft eru hugmyndir þannig að maður sér bara eitthvað og án þess að vita alveg af hverju þá er eitthvað þar sem þarf að rannsaka. Það er erfitt að segja nákvæmlega hvaðan hlutirnir koma en í gegnum teikningu eða einhvers konar leik á vinnustofu þá koma upp hlutir sem maður hefur orðið vitni að eða lesið um eða eitthvað, þeir eru svífandi þarna einhversstaðar og svo í vinnu þá koma þeir fram. Það er ekki endilega eitthvað sem ég leita í og fæ beint innblástur heldur síast hann inn og svo koma þessir hlutir út, yfirleitt í gegnum teikningu hjá mér.“

Hér má sjá þáttinn KÚNST í heild sinni:

Klippa: KÚNST - Baldvin Einarsson

Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×