Til stendur að setja aftur grímuskyldu á og takmarka samkomufjölda en hertar reglur taka gildi á miðnætti ytra.
Í frétt Reuters segir að nýju reglurnar miði við það að ekki megi fleiri en hundrað koma saman og á það meðal annars við brúðkaupsveislur. Það á þó sérstaklega við atburði þar sem notast er við bólusetningarpassa. Þar sem það er ekki gert mega ekki fleiri en 25 koma saman.
Á blaðamannafundi í dag sagði Ardern frá því að brúðkaupi hennar hefði verið frestað og sagðist hún hafa samúð með öðrum í sömu stöðu og hún. Spurð út í hvernig henni liði vegna brúðkaupsins svaraði hún:
„Svona er lífið. Ég er ekkert frábrugðin þúsundum annarra Nýsjálendinga sem orðið mun verr fyrir barðinu á faraldrinum en ég. Það versta er að geta ekki verið með ástvinum, sem eru stundum alvarlega veikir. Það er mun sorglegra en mínar aðstæður.“
Landamæri Nýja-Sjálands hafa verið lokuð erlendum aðilum frá því í mars 2020 en ríkisstjórn Ardern frestaði því nýverið að opna landamærin aftur um miðjan janúar til loka febrúar. Var það vegna mikillar dreifingar kórónuveirunnar meðal nágranna Nýja-Sjálands í Ástralíu.
Um 94 prósent allra íbúa landsins yfir tólf ára aldri hafa fengið minnst tvo skammta bóluefnis.