Erlent

Myndi í­huga að refsa Pútín sjálfum geri Rússar inn­rás

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joe Biden er forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden er forseti Bandaríkjanna. AP Photo/Andrew Harnik

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að hann myndi íhuga að beita Vladímir Pútín, forseta Rússlands, persónulegum refsiaðgerðum ráðist Rússar inn í Úkraínu.

Gríðarleg spenna er nú í Austur-Evrópu vegna þess að Rússar hafa komið fyrir miklum fjölda hermanna og hergagna við landamæri Úkraínu að undanförnu. Óttast er að Rússar ætli sér að gera innrás í Úkraínu.

Biden svaraði spurningum fréttamanna um stöðu mála á landamærum Rússlands og Úkraínu. Sagði hann að það myndi hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir Rússa myndu þeir ráðast inn í Úkraínu.

lfumLeiðtogar ríkja á Vesturlöndum hafa rætt saman um hvernig hægt væri að refsa Rússum fyrir innrás verði hún að veruleika, auk þess sem að Bandaríkin leggja mikla áherslu á að orkuframboð Evrópu verði tryggt, fari allt á versta veg.

Gríðarlegt magn af gasi er flutt inn til Evrópu frá Rússlandi.

Aðspurður hvort að hann sæi fyrir sér að beita Pútín persónulega refsiaðgerðum ráðist Rússar inn í Úkraínu svaraði Biden því játandi.

„Ég sæi það fyrir mér,“ sagði hann, án þess þó að fara nákvæmlega út í það í hverju það myndi felast.

Bandaríkin hafa sent hergögn til Úkraínu að undanförnu auk þess sem að 8.500 hermenn hafa verið settir í viðbragðsstöðu, fyrst og fremst til þess að liðsinna Nató-ríkjum. Úkraína er ekki meðlimur í Nato.


Tengdar fréttir

Saka Bandaríkin um að auka spennu í Austur-Evrópu

Ráðamenn í Rússlandi segjast fylgjast náið með og hafa áhyggjur af því að Bandaríkjamenn hafi sett 8.500 hermenn í viðbragðsstöðu vegna Úkraínu-krísunnar. Rússar segjast ekki ætla að gera innrás í Úkraínu en segjast geta framkvæmt ótilgreindar hernaðaraðgerðir verði ekki orðið við kröfum þeirra.

Rússar búast við svörum við kröfum sínum í næstu viku

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir ríkisstjórn Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, búast við skriflegum svörum við kröfum sínum í næstu viku. Lavrov fundaði í dag með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um spennuna í tengslum við Úkraínu.

„Rússarnir eru að sameina NATO“

Erindrekar Bandaríkjanna og Evrópu funda nú í Berlín vegna mögulegrar innrásar Rússlands í Úkraínu. Útlit er þó fyrir að spennan í Austur-Evrópu muni mögulega endurvekja Atlantshafsbandalagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×