Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 20,1 prósent sem er 4,3 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum í október. Framsóknarflokkurinn mælist hins vegar með 17,8 prósent sem er svipað fylgi og í kosningunum.
Fylgi Framsóknarflokksins hafði hins vegar minnkað í tveimur könnunum Maskínu í nóvember og desember en flokkurinn bætir nú töluvert við sig milli kannana.
Fylgi Pírata hefur vaxið statt og stöðugt frá kosningum þegar það var 8,6 prósent en var komið í 13,5 prósent dagana 9. til 19. janúar þegar Maskína gerði síðustu fylgiskönnun sína.
Samfylkingin bætir þremur prósentustigum við sig frá desemberkönnun og mælist nú með 12,3 prósent, Vinstri græn bæta við sig rétt rúmum tveimur prósentustigum og mælast nú með 11,2 prósent. Viðreisn er á svipuðum slóðum og áður með 9,2 prósent.
Flokkur fólksins mælist nú með 8,5 prósent og Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn reka síðan lestina með 3,7 prósent hvor flokkur.