Enski boltinn

E­ver­ton vill Lampard sem næsta þjálfara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frank Lampard stýrði Chelsea í 18 mánuði. Hann hefur verið án starfs í tæplega ár.
Frank Lampard stýrði Chelsea í 18 mánuði. Hann hefur verið án starfs í tæplega ár. Andy Rain/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur boðið Frank Lampard að verða næsti þjálfari liðsins. Lampard hefur verið án starfs síðan hann var látinn fara frá Chelsea í janúar á síðasta ári.

Everton er í þjálfaraleit eftir að sparka Rafa Benitez úr starfi nýverið. Stjórn Everton hefur ekki haft neina ákveðna taktík þegar kemur að því að finna eftirmann Benitez og hefur fjöldinn allur af mönnum verið orðaður við starfið.

Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Everton og núverandi þjálfari Derby County, var boðið starfið en afþakkaði pent. Þá var Vitor Pereira boðaður til viðræðna en stuðningsfólk Everton tók illa í það og var ákveðið að slíta viðræðunum.

Nú hefur Sky Sports staðfest að Everton sé í þann mund að semja við Frank Lampard, fyrrum goðsögn hjá Chelsea. Síðan skórnir fóru á hilluna hefur hann þjálfað Derby og Chelsea en hann fékk sparkið hjá síðarnefnda liðinu í janúar á síðasta ári.

Everton er sem stendur í 16. sæti ensku úrvalsdeildinni, aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti eftir að hafa unnið aðeins einn og gert þrjú jafntefli í síðustu 14 deildarleikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×