Hellisheiði var lokað á öðrum tímanum í dag og er hún enn lokuð. Næst verður kannað hvort tilefni sé að opna Hellisheiði og Þrengsli klukkan fjögur.
Vegagerðin bendir fólki á hjáleið um Suðurstrandarveg en þar er þó flughált og mjög varasamt.
Sjá einnig: Kröpp lægð gengur yfir - Hellisheiði lokuð vegna fastra bíla
Lögreglan segir að minnst ellefu bílum hafi verið ekið út í kant upp á heiði þar sem fólk ætli að bíða veðrið af sér. Þá hafi orðið minnst einn árekstur en upplýsingar um hann séu enn á reiki.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir tvo hópa björgunarsveitafólks hafa verið senda frá Reykjavík upp á Hellisheiði á fjórða tímanum í dag vegna bíla sem voru fastir þar uppi.
Þau séu nýmætt á svæðið og séu að reyna að ná utan um vandamálið.
Björgunarsveitir voru einnig kallaður út á Hvammstanga vegna bíls sem væri fastur við Hvítserk. Fólkið í honum væri í vandræðum. Þá hafi þak við bóndabæ á Suðurlandi verið að fjúka í dag en því hafi verið bjargað skjótt.