Gray-skýrslan var birt í gær en aðeins að hluta því lögregla rannsakar nú málið og hafði farið fram á að sumt í skýrslunni yrði ekki birt á meðan á lögreglurannsókn stæði.
Boris baðst enn og aftur afsökunar á veisluhöldum ríkisstjórnar og starfsmanna sinna í gær og lofaði bót og betrun í þeim málum.
Hann vildi þó ekki ganga svo langt að lofa því að skýrslan yrði öll birt á endanum en nú hafa fregnir borist um það úr Downingstræti 10 að skýrslan verði á endanum gerð opinber.
Í skýrslunni segir Gray að erfitt hafi verið að réttlæta samkvæmin og að sum þeirra séu til marks um alvarleg brot á þeim viðmiðum sem búist sé við að opinberir starfsmenn eigi að halda á lofti.
Samkvæmin sem um ræðir voru haldin á um tuttugu mánaða tímabili árin 2020 til 2021, þegar harðar sóttvarnareglur og samkomutakmarkanir voru í gildi á Bretlandi. Gray var með sextán samkvæmi til skoðunar og rannsakar lögregla nú tólf þeirra.