Valur hefur samið við Bandaríkjamanninn Jacob Calloway um að hann spili með Valsliðinu út tímabilið.
Jacob, sem er 202 sentimetrar á hæð og 25 ára gamall, er hreyfanlegur framherji og sagður vera öflug skytta. Eftir hann útskrifaðist úr skóla hefur hann leikið í Sviss, Tékklandi og núna síðast í Kólumbíu þar sem var fyrir áramót.
Jacob er væntanlegur til landsins á næstu dögum en Valsmenn steinlágu á móti Njarðvík í deildinni í gær þar sem liðið skoraði aðeins 69 stig og hitti bara úr 4 af 26 þriggja stiga skotum sínum sem gerir bara fimmtán prósent nýtingu.
Jacob Calloway spilaði með Southern Utah í bandaríska háskólaboltanum þar sem hann var með 7,4 stig og 3,7 fráköst að meðaltali í 95 leikjum en hann hitti úr 36 prósent þriggja stiga skotum sínum og var með yfir einn þrist að meðaltali í leik.
Calloway var með 13,4 stig, 5,9 fráköst, 1,4 stoðsendingar í leik og 37 prósent þriggja stiga nýtingu með NH Ostrava í tékknesku deildinni tímabilið 2019-20.
Hann spilaði tólf leiki með Tigrillos frá Medellin fyrir áramót og var þar með 17,3 stig, 8,7 fráköst, 2,3 stolna bolta og 1,4 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann hitti þar úr 31 prósent þriggja stiga skota sinna eða 26 af 73.