Egill Þór, sem er fæddur 1990, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en Vísir hefur áður greint frá baráttu Egils Þórs.
Erfið barátta því meinið er illskeytt
Egill Þór er með fjölskyldu sinni í Lundi en hann segir að síðustu vikur hafi reynst sér erfiðar bæði líkamlega sem andlega þar sem líkaminn hefur ekki verið að svara lyfjameðferð eins og vonast var, eftir að krabbameinið tók sig upp aftur.

„Í stuttu máli þá hef ég verið mjög lasinn og í óvissu hvernig framhaldið yrði, æxlið er jú mjög aggresívt og stækkar hratt þegar það svarar ekki lyfjum.“
Egill segir, í samtali við Vísi, þessa baráttu hafa verið sveiflukennda.
„Fyrst þegar ég fór í meðferð þá gekk allt eftir bókinni og ég útskrifaðist eftir 4 lyfjameðferðir. Stuttu seinna fóru hins vegar einkennin öll að koma aftur og núna hefur þetta ekki verið jafn auðvelt að ná þessu niður. Þannig að það endar með því að ég var sendur hingað til Svíþjóðar.“
Afar flókin meðferð
Og nú hefur verið ákveðið að senda Egil, fyrstan Íslendinga, í nýja hátæknimeðferð á sjúkrahúsinu í Lundi.
„Meðferðin er flókin en gengur út á að frumur eru teknar úr mér, þeim erfðabreytt, dælt svo aftur inn í mig nokkrum vikum síðar í von um að þær ráðist á æxlið og drepi það fyrir fullt og allt.
Þetta telja sérfræðilæknar að séu bestu líkur á lækningu. Við erum því bæði þakklát og bjartsýn á að þetta skili góðri niðurstöðu að lokum,“ segir Egill.
Hann segir að meðferðin heiti car-t cell og að sögn læknanna gefur hún bestar líkur á bata.
„Ég hef aldrei spurt út í prósentur á lækningu eða öðru, það er eitthvað sem ég persónulega vill ekki vita hreint út. Spítalinn hér í Lundi tók 13 manns að ég held í þessa meðferð, allt síðasta ár þannig þessi tækni er mjög ný en þó ekki á tilraunastigi.“