Atvinnulíf

Nem­endur búa sig undir vinnu­markaðinn á staf­rænum At­vinnu­dögum HÍ

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Fv: Jónína Kárdal náms- og starfsráðgjafi og umsjónarmaður Atvinnudaga Háskóla Íslands og Elísabet Sveinsdóttir markaðs- og kynningastjóri Vísindagarða. Í þessari vikus standa yfir Atvinnudagar HÍ, sem eru stafrænir. Þar taka þátt fjölmargir fulltrúar atvinnulífs og innan HÍ en markmið Atvinnudagana er að undirbúa nemendur í þátttöku á vinnumarkaði.
Fv: Jónína Kárdal náms- og starfsráðgjafi og umsjónarmaður Atvinnudaga Háskóla Íslands og Elísabet Sveinsdóttir markaðs- og kynningastjóri Vísindagarða. Í þessari vikus standa yfir Atvinnudagar HÍ, sem eru stafrænir. Þar taka þátt fjölmargir fulltrúar atvinnulífs og innan HÍ en markmið Atvinnudagana er að undirbúa nemendur í þátttöku á vinnumarkaði. Vísir/Vilhelm

Mikil fjölgun doktorsnema er meðal þess sem atvinnulífið þarf að búa sig undir en eins eru nemendur í öllum greinum að skoða hvað það er sem atvinnulífið er að leita eftir.

„Árangur Atvinnudaga Háskóla Íslands felst helst í því að stúdentar okkar fá sterkari sýn á sig sem verðandi sérfræðinga og hvers virði framlag þeirra er og verður í íslensku atvinnulífi,“ segir Jónína Kárdal náms- og starfsráðgjafi og umsjónarmaður Atvinnudaga Háskóla Íslands (HÍ). 

Í Atvinnulífinu í dag og á morgun verður fjallað um Atvinnudaga HÍ sem nú eru haldnir í sjötta sinn og standa yfir til 4.febrúar. Markmið Atvinnudaga er að undirbúa nemendur í þátttöku á vinnumarkaði en þessi viðburðarvika er stafræn.

Læra að koma sér á framfæri

Dagskrá Atvinnudaga er fjölbreytt en að henni hafa staðið Náms- og starfsráðgjöf HÍ, Fjármála- og atvinnulífsnefnd og Vísindagarðar. 

Dagskráin hófst með opnunarviðburði mánudaginn 31.janúar síðastliðinn þar sem Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna, miðlaði af sinni reynslu sem stjórnandi.

Þá eru ýmsar vinnustofur og fyrirlestrar alla vikuna. Til dæmis um það hvernig best er að komast í samband við vinnumarkaðinn, hvernig á að gera góða ferilskrá eða undirbúa sig undir atvinnuviðtöl og fleira.

„Stúdentar spyrja gjarnan hvernig fer ég að því að stjórna þessu öllu saman, að fara úr námi og yfir á vinnumarkað og öðlast starfsframa? Svarið er að það þarf að tala um þessi mál, þau lærast ekki á síðustu stundu þegar stúdentar eru við það ljúka námi,“ segir Jónína.

Þess vegna er dagskrá Atvinnudaga mjög gjarnan uppbyggð til að kenna nemendum hvaða tæki og aðferðir nýtast vel á vinnumarkaði.

„Markmið Atvinnudaga HÍ er að veita háskólastúdentum fræðslu sem nýtist þeim til að undirbúa sig undir þátttöku á atvinnumarkaði sem sérfræðingar í sinni grein. Inn í það fléttast hugtök eins og starfsþróun og starfshæfni sem á sér stað frá því að stúdentar hefja nám og allt þar til þeir útskrifast,“ segir Jónína.

„Eitt af hlutverkum Vísindagarða er að vera tengslatorg nýsköpunar og leiða saman annars vegar atvinnulíf og hins vegar starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands, svo til verði sem dæmi ný tækifæri til rannsókna, verkefna og starfsþróunar,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, markaðs- og kynningastjóri Vísindagarða.

Nýlega gerðu Tengslatorg HÍ og Vísindagarðar samstarfssamning um að stórefla starfsþjálfun fyrir nemendur, með því að efla tengsl við fyrirtæki, stofnanir og aðra aðila í atvinnulífinu.

Þess vegna leggjum við áherslu á að efla aðkomu atvinnulífs að Atvinnudögunum með sér viðburði, Vísindaferð atvinnulífsins, þar sem til boða stendur að kynna tækifæri til starfsþjálfunar eða lokaverkefni fyrir nemendur,“ 

segir Elísabet.

Á Atvinnudögum fá nemendur tækifæri til að undirbúa sig sem sérfræðingar í atvinnulífinu í sinni grein  segir Harpa. Elísabet hvetur nemendur sérstaklega til að mæta á stafrænt stefnumót við reynslubolta úr atvinnulífinu í dag. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn framtíðarinnar

Í ár er sérstök áhersla lögð á starfsþróun doktorsnema en í kynningarefni um Atvinnudaga HÍ kemur fram að þeim er að fjölga hratt á Íslandi þessi misserin.

Við spurðum Jónínu nánar um þetta.

„Atvinnudagar HÍ eiga erindi við alla stúdenta háskólans, bæði í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Það að doktorsnemum sem stunda nám við Háskóla Íslands hefur fjölgað verulega undanfarin ár þýðir jafnframt að einstaklingum með doktorsgráðu sem leita að störfum fjölgar einnig,“ segir Jónína en spyr:

Hvernig ætlar atvinnulífið að bregðast við því?“

Jónína bendir á að doktorsnemar séu allt í senn að skapa nýja þekkingu með rannsóknum sínum og að takast á við málefni fortíðar, nútíðar og framtíðar.

„Þessi þekking og kunnátta nýtist íslenskum atvinnumarkaði og atvinnuvegi varðandi samkeppnisstöðu íslensks efnahagslífs og því mikilvægt að atvinnurekendur séu tilbúnir til að taka á móti þessum einstaka mannauði.“

Að sögn Jónínu og Elísabetar koma til margar starfsráðningar í kjölfar Atvinnudaga HÍ. Nú séu vinnuveitendur til dæmis farnir að huga að ráðningum í sumarstörf og því sé það engin tilviljun að Atvinnudagar HÍ séu haldnir snemma á árinu. Á þessum tíma sé líka hægt að sækja í ýmsa sjóði eins og Nýsköpunarsjóð námsmanna.

En hvernig metur þú stöðuna í ljósi heimsfaraldurs og starfa fyrir nemendur?

„Hjól atvinnulífsins á lands- og heimsvísu snúast þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Í kreppuástandi er eðlilegt að draga saman seglin en í því felast einnig tækifæri til frumkvæðis og nýsköpunar,“ segir Jónína.

Þá hvetur Elísabet fólk sem er að taka sín fyrstu skref út í atvinnulífið til að fylgjast sérstaklega með skemmtilegu stefnumóti sem verður haldið í dag.

„Við í Vísindagörðum erum að bjóða nemendum á stefnumót við magnaða reynslubolta úr atvinnulífinu sem miðla af eigin reynslu og gefa góð ráð um það hvað skili bestum árangri þegar námi lýkur og vinnan tekur við. Þar verða gestir í pallborði Ásdís Eir Símonardóttir frá Lucinity, Leifur Geir Hafsteinsson frá Sidekick Health, Guðlaugur Örn Hauksson frá Íslandsbanka og Herdís Pála Pálsdóttir stjórnunarráðgjafi.“

Í vikunni verður jafnramt fyrsta vinnulotan í AWE nýsköpunarhraðlinum sem Atvinnulífið fjallaði sérstaklega um í fyrra en þetta er nýsköpunarhraðall fyrir konur sem Háskóli Íslands og Bandaríska sendiráðið standa nú fyrir í annað sinn.


Tengdar fréttir

Bjuggu til leiðtoganám á Bifröst fyrir verslunarstjóra Samkaupa

Með aukinni sjálfvirknivæðingu og síbreytilegu umhverfi vinnustaða hefur þjálfun starfsfólks og menntun á vegum vinnustaða aukist. Samkaup og Háskólinn á Bifröst hafa nú mótað saman sérstakt leiðtoganám fyrir verslunarstjóra Samkaupa en námið er vottað 12ECT eininga háskólanám og því geta nemendur nýtt sér einingarnar síðar fyrir frekari háskólanám.

Alcoa sendir fólk utan í nám

„Þó að stór hluti starfseminnar séu framleiðslustörf þá krefst starfsemin fjölbreyttra þekkingar og menntunar á fjölmörgum fagsviðum. Sum þeirra eru kennd í okkar háskólum hér á landi en önnur höfum við þurft að sækja erlendis, til dæmis til Noregs og Bretlands. Að auki þjálfum við okkar starfmenn reglulega innan fyrirtækisins,“ segir Ásgrímur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðhalds og áreiðanleika hjá Fjarðaráli.

„Fengum ítrekað að heyra að það væru bara engar konur“

„Í atvinnulífinu er síaukin eftirspurn eftir fólki með þekkingu á netkerfum, hýsingu og þessum rekstrarhluta tæknarinnar. Það hefur verið fjölgun á konum sem sækja nám í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði en nám í kerfisstjórn hefur setið svolítið eftir. Þess vegna vildum við athuga hvort einhverjar konur þarna úti hefðu kannski áhuga á þessu,“ segir Þóra Rut Jónsdóttir sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Advania um það hvers vegna Advania, Íslandsbanki, NTV og Prómennt tóku höndum saman um að styrkja eina konu til náms í kerfisstjórnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×