AP-fréttaveitan greinir frá þessu og vísar í tilkynningu frá marokkósku konungshöllinni. Mohammed sjötti Marokkókonungur vottaði fjölskyldu Rayan samúð sína í kvöld. Mikill fjöldi fólks hafði safnast á svæðinu en marokkóska þjóðin hefur fylgst náið með björgun drengsins sem féll í brunninn á þriðjudag.
Fyrr í kvöld var greint frá því að björgunarlið hafi náð að losa Rayan en í fyrstu voru engar upplýsingar veittar um ástand hans. Að sögn AP var drengurinn vafinn í gult teppi þegar viðbragðsaðilar komust að honum en skömmu fyrir það voru foreldrar hans fluttir á sjúkrahús, þangað sem hann var væntanlegur.
Myndavél var slakað niður í brunninn í fyrradag og staðfest að Rayan hafði lifað fallið af og var einnig búið að senda mat og súrefni til hans.

Brunnurinn nærri heimili þeirra
Brunnurinn er 32 metra djúpur og það þröngur að björgunarlið gat ekki sigið ofan í hann til að sækja Rayan. Í stað þess voru göng grafin að drengnum með fram brunninum en jarðvegurinn gerði viðbragðsaðilum erfitt fyrir sem óttuðust að hætta væri á skriðuföllum.
Fyrr í dag sagði yfirmaður björgunaraðgerða óvíst hvort Rayan væri lífs eða liðinn. „Það er ómögulegt að kanna líðan barnsins að svo stöddu, en við biðjum til guðs að það sé á lífi,“ sagði Abdelhadi Tamrani, í samtali við staðarmiðil.
Brunnurinn er staðsettur nærri heimili fjölskyldunnar í þorpinu Ighran í Chefchaouen-héraði í norðurhluta Marokkó. Fjölda djúpra brunna má finna í 500 manna þorpinu. Fram kemur í frétt AP að margir þeirra séu notaðir af fátækum íbúum til að veita vatni á kannabisplöntur sem séu megintekjulind margra íbúa á þessu dreifbýla og þurrviðrasama svæði. Ekki liggur fyrir hvernig slysið átti sér stað en flestum brunnunum er lokað með sérstökum ábreiðum.

Fréttin hefur verið uppfærð.