Fótbolti

Skiptir úr besta liði Þýska­lands í það næst besta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þýski miðvörðurinn í leik með Bayern fyrr á leiktíðinni.
Þýski miðvörðurinn í leik með Bayern fyrr á leiktíðinni. Pedro Salado/Getty Images

Þýski miðvörðurinn Niklas Süle mun í sumar ganga í raðir Borussia Dortmund en hann er í dag leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern München.

Hinn 26 ára gamli Süle gekk í raðir Bæjara árið 2017 en þar áður lék hann með Hoffenheim. Nú er samningur hans í þann mund að renna út og hefur miðvörðurinn ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Þýskalandsmeistaranna.

Borussia Dortmund hefur verið næst besta lið Þýskalands undanfarin ár á meðan Bayern hefur unnið hvern meistaratitilinn á fætur öðrum. Dortmund hefur nú samið við Süle og ljóst er að hann mun færa sig um set innan Þýskalands í sumar.

Süle á að baki 37 A-landsleiki fyrir Þýskaland sem og fjölda yngri landsleikja. Frá því hann gekk í raðir Bayern hefur hann fjórum sinnum orðið Þýskalandsmeistari, unnið þýska bikarinn tvívegis og Meistaradeild Evrópu einu sinni. 

Þá hefur liðið fjórum sinnum unnið þýska Ofurbikarinn ásamt því að vinna Ofurbikar Evrópu sem og HM félagsliða einu sinni.

Süle er annar varnarmaðurinn sem Bayern misstir frítt á aðeins tæplega ári en síðasta sumar samdi David Alaba við spænska stórveldið Real Madríd. 

Hvernig Julian Nagelsmann, þjálfari Bayern, bregst við á eftir að koma í ljós en Antonio Rüdiger – miðvörður Chelsea – hefur verið orðaður við Bayern að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×