Umfjöllun og viðtöl: Valur - Keflavík 84-73 | Öruggur Valssigur í Origo-höllinni í kvöld

Siggeir Ævarsson skrifar
visir-img
vísir/hulda margrét

Það var töluvert undir í Origo-höllinni í kvöld þar sem Valskonur tóku á móti Keflavík. Valur í hörkubaráttu um toppsætið í deildinni og Keflavík enn með annað augað á síðasta sætinu í úrslitakeppninni. Valskonur höfðu að lokum sanngjarnan og öruggan sigur 84-73 en sigurinn var í raun aldrei í hættu.

Valskonur fóru mun betur af stað og komust í 13-2. Algjör einstefna á vellinum í upphafi en leikhlé hjá Keflavík skilaði 8 stigum á einni mínútu eða svo. Valskonur voru þó með undirtökin svo til frá upphafi og héldu Keflvíkingum passlega langt frá sér eftir þetta áhlaup. Í hvert sinn sem Keflvíkingar gerðu sig líklegar áttu Valskonur svör og héldu muninum í um það bil 15 stigum í gegnum leikinn.

Ásta Júlía reyndist Keflvíkingum erfið í teignum en hún setti hvert sniðskotið á fætur öðru án þess að mæta mikilli mótspyrnu. Hún og Ameryst Alston voru í ákveðnum sérflokki hjá Valskonum í kvöld, Ásta með 13 stig í hálfleik og Alston með 16, og 5 fráköst og 6 stoðsendingar að auki. Staðan 48-30 í hálfleik og brött brekka framundan hjá gestunum. Holan sem þær grófu sér í byrjun var einfaldlega of djúp.

Seinni hálfleikur var svolítið meira af því sama. Keflavík spilaði ágætis vörn á köflum og náðu t.a.m. að láta Val klára skotklukkuna þrisvar en sóknarmegin var lítið að frétta og Valskonur bættu einfaldlega í forskotið. Það kom smá vonarneisti í upphafi 4. leikhluta þar sem Keflavík skoraði fyrstu 4 stigin en Hallveig svaraði með þristi og slökkti neistann. Valskonur tæmdu svo bekkinn þegar rúm mínúta var til leiksloka og gengu Keflvíkingar á lagið og löguðu stöðuna aðeins til, en leikurinn var einfaldlega búinn á þeim tímapunkti og bara formsatriði að klára.

Af hverju vann Valur?

Þær gerðu flest allt rétt í kvöld og áttu alltaf svör við sóknaraðgerðum Keflavíkur. Þjálfarateymið hjá Val nýtti sín leikhlé vel og náðu að stoppa allt sem Keflvíkingar reyndu að gera.

Hverjar stóðu upp úr?

Ameryst Alston var í sérflokki á vellinum í kvöld og daðraði við þrefalda tvennu. Skoraði 26 stig, reif niður 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Þegar Valur þurfti körfu þá kom hún með hana. Þá átti Ásta Júlía Grímsdóttir mjög flottan leik í kvöld en Keflavík réð ekkert við hana í teignum. 21 stig og 10 fráköst frá henni.

Hvað fór illa?

Byrjunin fór með Keflavík í kvöld. Þær grófu sér 9 stiga holu og áttu oft í miklum erfiðleikum með að skora þrátt fyrir ágætan varnarleik á köflum. Daniela Wallen Morillo átti ágætan leik og dró vagninn fyrir gestina með 24 stig og 15 fráköst. Anna Ingunn Svansdóttir átti ágæta spretti og endaði með 15 stig en stimplaði sig svo út með óíþróttamannslegri villu og tæknivillu í kaupbæti.

Hvað gerist næst?

Þjálfarar beggja liða lögðu mikla áherslu á að tæka bara einn leik í einu í viðtölum eftir leik. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að úrslitin þýða að Valur er kominn í lykilstöðu í baráttunni um toppsætið og Keflavík sennilega búið að stimpla sig útúr baráttunni um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Jón Halldór: Grófum okkur djúpa holu í fyrri hálfleik

Jón Halldór Eðvaldsson er þjálfari Keflavíkur.Vísir/Hulda Margrét

Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður með sínar stelpur þrátt fyrir tap, og þá ekki síst með baráttuna sem þær sýndu, en sagði að byrjunin hefði orðið þeim að falli í kvöld.

„Ég er ánægður með liðið mitt í seinni hálfleik, en við grófum okkur djúpa holu í fyrri hálfleik þar sem við hittum illa og þær hittu vel. Þar myndaðist 18 stiga bil og það er ótrúlega erfitt á móti svona góðu liði eins og Val að brúa það á 20 mínútum. En við reyndum.“

Keflavík átti spretti inn á milli en Valur virtist alltaf eiga svör sem stoppuðu öll áhlaup Keflavíkur í startholunum.

„Valur er með svakalega gott lið og það er eðlilegt að þær séu með svör. Þær komu með þau í dag sem gerði okkur ennþá erfiðara fyrir. En við héldum áfram og við hættum ekki, kláruðum leikinn með sæmd og ég er ánægður með það.“

Jonni vildi lítið gefa út um möguleika Keflavíkur á að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni í vor.

„Eina sem ég veit er að það er leikur á miðvikudaginn gegn Breiðabliki. Ég horfi ekkert lengra en það. Ég veit að við erum í hörku baráttu og þetta er erfitt og við getum ekkert leyft okkur að horfa eitthvað lengra en það eða á önnur lið, hvort sem þau eru fyrir ofan okkur eða neðan í töflunni. Við þurfum að hugsa um okkur og ef við gerum það og æfum okkur í að vera betri í dag heldur en í gær þá gerist bara kannski eitthvað skemmtilegt. Við eigum eftir að spila við öll liðin einu sinni jafnvel tvisvar og við verðum bara að spila þetta í rólegheitum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira