Menning

„Hugmynd sem nær út fyrir hið sjónræna og opnar enn stærri sýn en sést á yfirborðinu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson opnar sýninguna AUGA Í NAGLAFARI á morgun, laugardag.
Listamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson opnar sýninguna AUGA Í NAGLAFARI á morgun, laugardag. Aðsend

Listamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson opnar sýningu á morgun, laugardaginn 12. febrúar, í Portfolio Gallerí á Hverfisgötu 71.

Verk frá árunum 1977-1987 verða þar til sýnis og hafa listfræðingurinn Jón Proppé og Steingrímur Eyfjörð verið Helga innan handar sem sýningarstjórar.

Helgi Þorgils býr yfir margra áratuga reynslu í listheiminum en hann hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1975, fyrir tæpri hálfri öld. Blaðamaður heyri í Helga og tók púlsinn á honum fyrir sýningaropnun.

Sýningin heitir AUGA Í NAGLAFARI en samkvæmt Helga er naglafarið op sem hefur gefið okkur sýn á marga hluti.

„Þannig má segja að við gægjumst í naglafarið og það opni sýn.“

Helgi segir að hugmynd sýningarstjóranna hafi verið að hann myndi safna saman listaverkum frá árunum í kringum 1980, sem þeir telja að fáir þekki í dag.

Brot af verkum Helga Þorgils.Aðsend

Skapar samtal með verkunum

„Þannig séð safnaði ég bara saman verkum frá þessum tíma og reyndi að skapa samtal með verkunum. Ég geri það jafnan á flestum sýningum mínum. Ég bý til veggi, frekar en að safna saman einstaklingum, og vel oft í því skyni ólík verk með margar raddir. Þannig verður veggurinn eitt verk, með sjálfstæðum verkum séu þau tekin út fyrir stóra rammann.

Hvert og eitt verk er hugmynd sem nær út fyrir hið sjónræna og opnar enn stærri sýn en sést á yfirborðinu.“

Leitin er fjörkálfur

Sýningargestir hafa svigrúm til að upplifa verkin á eigin hátt en eru hvattir til að staldra aðeins við í upplifun sinni.

„Hugsanabóla gestsins þenst út, gefi hann hverri mynd eitt augnablik og hugsi um heiti verkanna og efnismeðferð og gefi sér frelsi,“ segir Helgi og bætir við að á þeim tíma sem hann skapaði verk sýningarinnar hafi hann oft reynt vel á mörk þessarar hugsunarbólu.

„Stærri málverkin hafa sjóndeildarhring sem verður til við gerð minni verkanna sem safnast saman eins og veggurinn, þar til það er nauðsynlegt að framlengja hann áður en hugsunarbólan hefur þanist það mikið út að hún er við það að springa.

Leitin er fjörkálfur, skemmtilegur og fullur af afkimum sem leynast í naglafarinu,“ 

segir Helgi Þorgils að lokum.

Helgi Þorgils býr til veggi og skapar samtal með verkunum.Aðsend/Portfolio Gallerí

Áhrif til samtímans

Fortíðin spilar oft veigamikið hlutverk í samtímanum og geta listrænar stefnur og áhrif þeirra farið í hringi. Í sýningartexta AUGA Í NAGLAFARI segir Jón Proppé listfræðingur og sýningarstjóri að Helgi hafi verið „…einn þeirra ungu listamanna sem voru að endurvekja málverkið og finna því hlutverk í nýju framúrstefnunni.“ 

Einnig segir Jón Proppé að í gegnum verkin á þessari sýningu sé hægt að „greina betur þá strauma sem þarna runnu saman í það þróttmikla myndlistar umhverfi sem við búum enn að á Íslandi.“ Hægt verður að rannsaka þessi áhrif til samtímans nánar í gegnum fortíðar sköpunarheim Helga Þorgils á sýningunni, sem stendur til 5. mars þessa árs.

Sýningin stendur til 5. mars næstkomandiAðsend/Portfolio Gallerí

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.