Fótbolti

Napoli og Inter skildu jöfn í toppslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Napoli og Inter skiptu stigunum á milli sín í kvöld.
Napoli og Inter skiptu stigunum á milli sín í kvöld. Ivan Romano/Getty Images

Ítalíumeistarar Inter heimsóttu Napoli í toppslag ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 1-1, en liðin sitja nú í eftu tveimur sætum deildarinnar.

Lorenzo Insigne kom heimamönnum í Napoli yfir eftir rúmlega fimm mínútna leik af vítapunktinum eftir að Stefan de Vrij braut á Victor Osimhen innan vítateigs, en þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.

Staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja, en síðari hálfleikurinn var ekki nema um tveggja mínútna gamall þegar gestirnir í Inter jöfnuðu. Þar var á ferðinni Edin Dzeko eftir klufaleg mistök í vörn heimamanna.

Ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan því 1-1 jafntefli. Liðin sitja sem áður segir í efstu tveimur sætum deildarinnar. Inter trónir á toppnum með 54 stig eftir 24 leiki, einu stigi meira en Napoli sem hefur þó leikið einum leik meira.

Baráttan um ítalska meistaratitilinn verður hörð því fast á hæla þeirra fylgir AC Milan með 52 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×