Fótbolti

Emil aftur í fótbolta eftir hjartastoppið

Sindri Sverrisson skrifar
Emil Pálsson á fyrstu æfingunni eftir hjartastoppið í byrjun nóvember. Hann æfði með Sarpsborg á Spáni í gær.
Emil Pálsson á fyrstu æfingunni eftir hjartastoppið í byrjun nóvember. Hann æfði með Sarpsborg á Spáni í gær. sarpsborg08.no

Þremur mánuðum eftir að hafa verið lífgaður við á knattspyrnuvellinum, þar sem hjarta hans stöðvaðist í hátt í fjórar mínútur, er Emil Pálsson farinn að geta æft fótbolta að nýju.

Norska félagið Sarpsborg, sem Emil er á mála hjá, birti myndskeið af Emil í gær þar sem hann tók þátt í æfingu á Spáni en liðið undirbýr sig þar fyrir komandi keppnistímabil.

Emil kvaðst svo sannarlega glaður yfir að komast aftur á æfingu, og geta hitt félaga sína.

Það var 1. nóvember síðastliðinn sem Emil hné niður í leik með Sogndal í norsku 1. deildinni, en Emil var að láni hjá Sogndal seinni hluta síðustu leiktíðar.

„Mér er sagt að hjartað mitt hafi verið stopp í kannski þrjár og hálfa mínútu (eftir að endurlífgunartilraunir hófust) svo það má segja að ég hafi verið dáinn í fjórar mínútur,“ sagði Emil þegar hann ræddi við fjölmiðla í fyrsta sinn eftir hjartastoppið.

Í viðtölum í kjölfarið sagðist hann ekkert vita um framhaldið hjá sér í fótboltanum og taldi jafnvel lítinn möguleika á að hann héldi knattspyrnuferlinum áfram. 

Svipmyndirnar frá æfingu Sarpsborg í gær gefa hins vegar til kynna að þessi 28 ára gamli Ísfirðingur sé á réttri leið, líkt og Daninn Christian Eriksen sem er mættur í ensku úrvalsdeildina hjá Brentford eftir hjartastopp á EM í fyrrasumar.

Sarpsborg á fyrir höndum nokkra æfingaleiki á Spáni en byrjar svo leiktíðina á bikarleik gegn Asane 13. mars. Fyrsti leikur liðsins í norsku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð er gegn Viking 3. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×