Um­fjöllun og við­töl: Haukar - Valur 97-71 | Risa­sigur Hauka gegn Ís­lands­meisturunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haukar unnu öruggan sigur á Val í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld.
Haukar unnu öruggan sigur á Val í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Haukar völtuðu yfir Val í Subway-deild kvenna í kvöld. Frábær þriðji leikhluti lagði grunninn að 97-71 sigri Hauka sem nálgast Val í töflunni.

Haukar byrjuðu betur í kvöld en Valskonur voru þó aldrei langt undan. Haukar leiddu með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta en Valskonur komu til baka í öðrum leikhlutanum.

Keira Robinson var stórkostleg í fyrri hálfleiknum, skoraði 31 stig og Valskonur réðu ekkert við hana. Hún setti niður fimm þrista og frábær leikur Ameryst Alston hjá Val, sem skoraði 20 stig í fyrri hálfleik, féll í skuggann á stórleik Robinson.

Staðan í hálfleik 50-41 fyrir Hauka.

Í þriðja leikhluta gengu heimakonur síðan frá leiknum. Þær spiluðu frábæran varnarleik og Valskonur sáu ekki til sólar. Ameryst Alston var sú eina sem náði sér á strik sóknarlega hjá Val og það sárvantaði framlag frá öðrum lykilleikmönnum.

Á sama tíma stigu aðrir leikmenn upp hjá Haukum þegar hægðist á stigaskori Robinson. Það skipti litlu máli þó Helena Sverrisdóttir lenti í villuvandræðum og Haukar juku smátt og smátt við forskotið.

Munurinn fór mest í 29 stig og úrslit leiksins voru ráðin löngu áður en lokaflautan gall. Lokatölur 97-71 og Haukar farnar að gera sig gildandi í baráttunni við toppinn.

Af hverju unnu Haukar?

Þær spiluðu einfaldlega mun betur en Valsliðið í kvöld. Þar var miklu meira orka í leik Haukanna og varnarleikur liðsins var mjög góður lengst af.

Á meðan var sjaldséð andleysi yfir Valsliðinu. Þær töpuðu frákastabaráttunni, töpuðu boltanum oftar og voru alltaf einhverjum skrefum á eftir Haukaliðinu í dag.

Það er ljóst að þessi breyting sem Haukar gerðu um áramótin, þegar þær tóku inn Keira Robinson, hefur haft jákvæð áhrif á Haukaliðið og þær eru til alls líklegar nú þegar fer að síga á seinni hluta tímabilsins.

Þessar stóðu upp úr:

Keira Robinson setti upp sýningu í fyrri hálfleik. Þá skoraði hún 31 stig og var gjörsamlega stórkostleg. Þó svo að hægst hafi á stigaskorinu eftir hlé þá hélt hún áfram að spila vel, var dugleg að spila samherja sína uppi og splundra vörn Vals.

Hún endaði leikinn með 38 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar. Hún var þó ekki stigahæst á vellinum því Ameryst Alston var mögnuð hjá Val og endaði leikinn með 44 stig.

Munurinn á liðunum var þó framlag annarra leikmanna. Sólrún Inga og Lovísa Björt Henningsdóttir komu með 25 stig af bekknum og Helena Sverrisdóttir skilaði góðu framlagi eins og hennar er von og vísa.

Elísabeth Ýr Ægisdóttir spilaði frábæra vörn, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þá kom Tinna Guðrún Alexandersdóttir sterk inn og sérstaklega í upphafi síðari hálfleiks.

Hvað gekk illa?

Það var í raun ekki sérlega mikið sem gekk vel hjá Val. Sóknarlega voru þær algjörlega háðar Ameryst Alston og varnarlega spiluðu þær ekki vel. 

Það var mikið andleysi yfir liðinu eins og Berglind kom inn á í viðtali en vissulega munaði um að Dagbjörg Dögg Karlsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir voru fjarverandi. Það munar um það hjá öllum liðum í þessari deild að vera án jafn sterkra leikmanna.

Hvað gerist næst?

Haukar fá topplið Njarðvíkur í heimsókn á sunnudaginn. Haukar eiga enn leiki inni á liðin fyrir ofan þá og geta komið sér nær toppnum með sigri.

Valur fær Fjölni í heimsókn á sama tíma en liðin eru með jafnmörg stig í töflunni.

Bjarni: Við þurfum að finna taktinn á báðum endum

Bjarni lét vel í sér heyra á hliðarlínunni á Ásvöllum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Við töluðum um það fyrir leik, burtséð frá því hvernig síðasti leikur fór, að við værum að leita eftir meiri orkustigi í liðinu og þá sérstaklega varnarlega. Það kom að stórum hluta,“ sagði Bjarni Magnússon þjálfari Hauka eftir sigurinn gegn Val í kvöld.

Valsliðið bar sigur úr býtum í viðureign þessara sömu liða fyrir tíu dögum síðan. Haukar ætluðu sér greinilega að hefna fyrir það tap í kvöld.

„Við duttum aðeins niður á hælana í öðrum leikhluta fannst mér. Við töluðum um það í hálfleik að við vorum ekki ánægð þó við værum með forystu því þær voru að skora mikið á okkur. Þær skora svipað í síðari hálfleik og þær gerðu í öðrum leikhluta þannig að ég er mjög ánægður með orkuna sem við settum í leikinn.“

Innkoma Hauka eftir hlé gerði gæfumuninn í kvöld og þær svo gott sem gengu frá leiknum í þriðja leikhluta.

„Það hefur verið akkilesarhæll hjá okkur í vetur, þessi þriðji leikhluti. Við höfum komið of flatar inn eftir hálfleik þrátt fyrir að hafa stundum verið með ágæta stöðu í hálfleik. Við náðum að breyta því í dag og við kláruðum eiginlega leikinn þar.“

Keira Robinson var frábær hjá Haukum og í dag og skoraði til að mynda 31 stig í fyrri hálfleiknum.

„Hún er frábær leikmaður. Við vorum að leita eftir ákveðnum stöðum, að neyða þær til að skipta svo það myndi skapast ójafnvægi hjá þeim gegn henni. Hún nýtti sér það mjög vel og kláraði færin trekk í trekk.“

„Svo fundust aðrar opnanir í síðari hálfleik og við erum með fullt af góðum leikmönnum. Við þurfum að finna taktinn á báðum endum, það er ekki nóg að spila bara góðan sóknarleik. Við þurfum að geta bakkað það upp hinu megin. Vonandi að þetta sé áframhaldandi skref í því að við séum að verða betri.“ 

Berglind: Hún skellti því í smettið á okkur og sagði bara takk kærlega

Það var hart barist á Ásvöllum í kvöldVísir/Hulda Margrét

Berglind Gunnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, stóð vaktina á hliðarlínunni í kvöld í fjarveru Ólafs Sigurðssonar þjálfara. Hún hafði lítið jákvætt að segja um frammistöðu Valsliðsins gegn Haukum.

„Ég er nú jákvæð að eðlisfari og það er alltaf hægt að tína eitthvað til en það er kannski ekki mikið sem mér dettur í hug núna. Við skorum 71 stig sem er ekki alslsæmt,“ sagði Berglind þegar hún var spurð hvað Valsliðið gæti tekið með sér jákvætt úr leiknum í kvöld.

„Við fáum á okkur 97 stig sem er auðvitað alltof mikið. Þær voru með tæplega 50% þriggja stiga nýtingu í dag og hittu vel. Stigaskorið var frekar einhæft hjá okkur sem við viljum ekki að það sé. Við eigum eftir að skoða leikinn og það er alltaf eitthvað jákvætt hægt að taka út.“

Það vantaði leikmenn í Valsliðið í dag. Dagbjörg Dögg Karlsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir voru ekki með liðinu og ekki heldur Hildur Kjartansdóttir sem er að snúa til baka eftir erfið höfuðmeiðsli.

„Auðvitað söknum við þeirra. Hildur er búin að vera að koma sterk inn, það er gott að hafa hana í hóp og á vellinum með reynsluna og allt sem hún kemur með. Það eru bara fimm inni á vellinum og við erum með mannskap til þess þannig að þetta er ekki nein afsökun.“

„Við eigum að geta gert mikið betur og mér fannst mikið andleysi yfir liðinu. Við lendum undir og svo einhvern veginn er erfitt að elta allan tímann. Við náum forskotinu niður í öðrum leikhluta en komum svo bara slappar inn í þriðja leikhluta. Það var einhver deyfð yfir okkur allan leikinn“

Í þriðja leikhlutanum gengu Haukar svo gott sem frá leiknum. Þær juku muninn upp í 23 stig og það var of mikið bil fyrir Valskonur að brúa.

Keira Robinson skoraði 31 stig fyrir Hauka í fyrri hálfleik og lék sér að Valsvörninni.

„Við vorum með ákveðið plan og ætluðum að fara undir á hindrunum á hana. Hún skellti því í smettið á okkur og sagði bara takk kærlega og setti niður fimm þrista í fyrri hálfleik. Við breyttum í hálfleik og spiluðum betri vörn á hana í seinni hálfleik.“

„Þær eru með frábæra skotmenn alls staðar og voru að setja niður stór skot í dag sem einhvern veginn drap okkur alltaf niður aftur. Þegar við spiluðum betri vörn á Keiru stigu aðrar upp. Heilt yfir var varnarleikurinn slakur og mikið andleysi. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða og gera betur,“ sagði Berglind að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira