Körfubolti

Bætti 59 ára gamalt met Wilts Chamberlain

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeMar DeRozan og félagar í Chicago Bulls eru á toppnum í Austurdeildinni í NBA.
DeMar DeRozan og félagar í Chicago Bulls eru á toppnum í Austurdeildinni í NBA. getty/Jamie Sabau

DeMar DeRozan, leikmaður Chicago Bulls, hefur spilað frábærlega að undanförnu og í nótt bætti hann tæplega sextíu ára gamalt met Wilts Chamberlain.

DeRozan skoraði 38 stig þegar Chicago vann Sacramento Kings, 125-118, í NBA-deildinni. Hann tók 27 skot í leiknum og hitti úr sextán þeirra sem gerir 59 prósent skotnýtingu.

Hinn 32 ára DeRozan hefur nú skorað 35 stig eða meira og verið allavega með fimmtíu prósent skotnýtingu í sjö leikjum í röð.

DeRozan hefur nú slegið met Chamberlains yfir flesta leiki í röð með 35 stig og fimmtíu prósent skotnýtingu. Chamberlain náði því sex leiki í röð í tvisvar á ferlinum, í seinna skiptið 1963.

„Ég er orðlaus að vera í sögubókunum með þessum mönnum. Ég tek þessu aldrei sem sjálfsögðum hlut. Og það fáránlega er að mér fannst ég klikka á átta auðveldum skotum sem ég set venjulega niður. Mér fannst ég eiga slakan skotleik,“ sagði DeRozan.

Í síðustu sjö leikjum er DeRozan með 38,6 stig, 5,7 fráköst og 5,6 stoðsendingar að meðaltali. Skotnýtingin er 60,7 prósent. Hann hefur skorað allavega þrjátíu stig í átta leikjum í röð sem er það mesta sem leikmaður Chicago hefur gert frá því Michael Jordan afrekaði það 1996.

DeRozan kom til Chicago frá San Antonio Spurs fyrir tímabilið og hefur slegið í gegn í vindaborginni. Hann er fjórði stigahæsti leikmaður NBA með 28,1 stig að meðaltali í leik. Auk þess er hann með 5,2 fráköst og 5,1 stoðsendingu og skotnýtingin er 51,7 prósent. DeRozan byrjar inn á í Stjörnuleiknum sem fer fram í Cleveland á sunnudaginn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×