Starfshópur um tekjuöflun Happdrættis Háskóla Íslands skilaði niðurstöðum sínum í júní í fyrra en í dag var skýrslan gerð opinber. Umræddur starfshópur telur að hvorki samkeppnissjónarmið né mögulegt tekjutap dugi til að slá því á frest að grípa til aðgerða sem tryggja ábyrga spilun og beri HHÍ að leggja sérstaka áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir.
Í yfirlýsingu frá Bryndísi, fyrir hönd HHÍ, segir að stjórnarmaður HHÍ hafi tekið þátt í vinnu starfshópsins og að hún hafi verið vel meðvituð um vinnu hópsins og fullkunnugt um efni og niðurstöður skýrslunnar.
Bryndís kveðst reglulega hafa mætt á fundi háskólaráðs þar sem farið var yfir rekstur og rekstrarumhverfi HHÍ og meðal annars lagt áherslu á ráðstafanir gagnvart „ábyrgri spilun“ og kynnt hugmyndir um spilakort.
Hún segir að vinna við innleiðingu spilakorts sé löngu hafin. Félagið hafi ráðist í undirbúning að innleiðingu þeirra árið 2018 að eigin frumkvæði.
„Vinnan við innleiðinguna hófst í júní árið 2019 og var vel á veg komin þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en hann hefur truflað vinnu erlendra sérfræðinga sem HHÍ á í samstarfi við.“