Innlent

Um­­­fangs­­­mikil sér­­­sveitar­að­­­gerð á Flyðru­granda

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Lögregla ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra var með talsverðan viðbúnað á Flyðrugranda í Reykjavík nú á sjöundu stundu í kvöld. Útkallið varðaði mögulegan vopnaburð en reyndist ekki á rökum reist. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir viðbúnaðinn hafa verið töluverðan.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að borist hafi tilkynning um að innandyra í íbúðarhúsi á Grandanum væri karlmaður sem hefði verið skotinn og væri með áverka. Á vettvangi hafi síðan engan slasaðan mann verið að finna.

„Við fengum tilkynningu sem við þurftum að fylgja eftir en svo var hún ekki á rökum reist. En við handtókum einn til að ræða við hann,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir lögreglu taka tilkynningum um mögulegan vopnaburð alvarlega, sérstaklega í ljósi tveggja skotárása sem framdar voru í Grafarholti og í miðbænum nú nýverið. Viðbúnaður lögreglu nú í kvöld tengist málunum ekki.

„Við fengum tilkynningu um atvik sem við ætluðum að skoða og við hefðum þurft að vera með svolítið viðbragð ef það hefði verið rétt. En svo reyndist það ekki á rökum reist,“ segir Jóhann Karl og bætir við að aðilinn sem tilkynnti málið hafi verið í annarlegu ástandi. Hann hafi verið handtekinn í kjölfarið, svo unnt verði að ræða við hann.

„Þetta var ekki á rökum reist, sem betur fer,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en talið er að um gabb hafi verið að ræða.

Fréttin var uppfærð eftir tilkynningu frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×