Sport

Typpi skíðagarps fraus í annað sinn á einu ári: „Einn versti sársauki sem ég hef fundið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Remi Lindholm var líklega feginn þegar hann kom í mark í 30 km skíagöngu karla með frjálsri aðferð í gær.
Remi Lindholm var líklega feginn þegar hann kom í mark í 30 km skíagöngu karla með frjálsri aðferð í gær. Tom Weller/VOIGT/DeFodi Images via Getty Images

Þrátt fyrir að 50 km skíðaganga karla hafi verið stytt um 20 km á seinustu stundu í gær til að vernda keppendur frá veðri og vindum kom það ekki í veg fyrir að finnski skíðagarpurinn Remi Lindholm þurfti að afþýða sérstaklega viðkvæman líkamspart að keppni lokinni.

Lindholm kom í mark í 28. sæti á tímanum 1:15:55.6, fimm sætum á eftir íslenska gönguskíðagarpnum Snorra Einarssyni sem náði besta árangri Íslendings í skíðagöngu á Ólympíuleikum.

Eins og áður segir var ákveðið að stytta keppnina umtalsvert þar sem að nístandi kuldi og mikill vindur hafði áhrif á keppendur. Veðrið fór greinilega ekki vel í alla, eins og Remi Lindholm getur sjálfur vitnað til um.

Þetta er í annað sinn á innan við einu ári sem Lindholm lendir í því að þurfa að afþýða typpið á sér eftir keppni, en hann lenti í svipuðu atviki í Ruka í Finnlandi á seinasta ári.

„Þið getið giskað á hvaða líkamspartur var aðeins frosinn þegar ég kom í mark,“ sagði Lindholm eftir keppnina. „Þetta var ein versta keppni sem ég hef tekið þátt í. Þetta snérist bara um að berjast í gegnum sársaukann.“

Lindholm segir að hann hafi notað hitapoka til að afþýða svæðið að keppni lokinni.

„Þegar líkamsparturinn fór að hitna eftir keppnina þá var það einn versti sársauki sem ég hef fundið,“ bætti kappinn við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×