Fótbolti

Wilshere heillaðist af leikstíl AGF

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Wilshere hefur æft með Arsenal í vetur.
Wilshere hefur æft með Arsenal í vetur. vísir/Getty

Það vakti heimsathygli í gær þegar tilkynnt var um samning enska knattspyrnumannsins Jack Wilshere við danska úrvalsdeildarliðið AGF í Árósum.

Wilshere á 34 landsleiki að baki fyrir enska A-landsliðið en hefur verið án félags síðan hann yfirgaf enska B-deildarliðið Bournemouth síðasta vor.

Norðmaðurinn Stig Inge Bjornebye, fyrrum leikmaður Liverpool og Blackburn, er íþróttastjóri AGF og hann átti stóran þátt í að klófesta Wilshere.

„Ég er mjög ánægður að vera hérna. Eftir að hafa talað við þjálfarana og Stig (Inge Björnebye) var ég heillaður. Ég hef sagt að núna ætlaði ég mér að velja lið sem spilaði ákveðinn leikstíl,“ sagði Wilshere í viðtali við heimasíðu AGF.

„Aðalatriðið fyrir mig í dag er að njóta þess að spila fótbolta. Mér finnst þetta fullkomið tækifæri.“

„Ég vissi ekki mikið um dönsku deildina, til að vera alveg heiðarlegur. Ég hef kynnt mér danska boltann síðustu daga til að átta mig á gæðunum hér. Ég hlakka til að takast á við danska boltann og sanna mig fyrir öllum í Danmörku,“ segir Wilshere.

Í viðtalinu kveðst hann vera í góðu formi enda hefur hann æft með aðalliði Arsenal undanfarna mánuði en hann er uppalinn hjá Lundúnarliðinu og í miklum metum þar.

Hjá AGF hittir Wilshere fyrir íslensku landsliðsmennina Jón Dag Þorsteinsson og Mikael Neville Anderson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×