Fótbolti

„Jafn­vel enn stærra en að vinna heims­meistara­titilinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe fagnar sigri bandaríska landsliðsins á HM 2019.
Megan Rapinoe fagnar sigri bandaríska landsliðsins á HM 2019. AP/Seth Wenig

Bandaríska kvennalandsliðið vann risastóran sigur í gær þegar þær höfðu það loksins í gegn að fá jafnmikið borgað frá knattspyrnusambandinu og karlalandslið Bandaríkjanna fær.

Baráttan hefur staðið í yfir sex ár og fyrir dómstólum undanfarin misseri. Lokin urðu þó að bandaríska knattspyrnusambandið náði samkomulagi við knattspyrnukonur utan réttarsalsins.

Sáttagerð landsliðskvennanna og bandaríska sambandsins hljómar upp á 24 milljóna dala greiðslu til knattspyrnukvennanna. Greiðslan er hugsuð sem bónusgreiðslur fyrir fyrri afrek liðsins en það er á eftir að skipta þeim niður á leikmenn liðsins á undanförnum árum.

Í samkomulaginu er það einnig fest á blaði að leikmenn karla- og kvennalandsliðsins fái sömu árangurstengdu greiðslur en konurnar standa körlunum miklu framar en hafa fengið mun lægri bónusa.

Megan Rapinoe hefur verið í fararbroddi í baráttu landsliðskvennanna og var ein af þeim sem fór með sambandið fyrir dóm. Hún fagnaði þessari niðurstöðu með einfaldri færslu á samfélagsmiðlum sem hljómaði þannig: Þegar við vinnum þá vinna allir.

Megan ræddi líka við Sky Sports um niðurstöðuna og þar fór ekki á milli mála hversu stór sigur þetta var fyrir fótboltakonur í Bandaríkjunum.

„Það er stórvirki að vinna heimsmeistaratitilinn sérstaklega eins og við gerðum það á sama tíma og við stóðum í þessari baráttu utan vallar,“ sagði Megan Rapinoe við Sky Sports.

Hún var besti leikmaður HM og markadrottning á sama tíma og hún var andslit liðsins í baráttunni utan vallar.

„Mér finnst þetta hafa verið alveg eins mikið þrekvirki og jafnvel enn stærra en að vinna heimsmeistaratitilinn á svo marga hátt. Ég er spennt fyrir að halda inn í framtíðina,“ sagði Megan.

Hún er samt búin að missa sæti sitt í bandaríska landsliðinu og verður því ekki með á móti Íslandi í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×