Fótbolti

Enginn í Evrópu sparkaður jafnoft niður og Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar kallar hér eftir aukaspyrnu í leik Paris Saint-Germain og Real Madrid í Meistaradeildinni á dögunum.
Neymar kallar hér eftir aukaspyrnu í leik Paris Saint-Germain og Real Madrid í Meistaradeildinni á dögunum. EPA-EFE/Yoan Valat

Brasilíumaðurinn Neymar er kannski jafnþekktur fyrir leikaraskap og fyrir snilli sína með boltann. Ný samantekt sýnir fram á að það er alltaf verið að brjóta á kappanum.

Enginn í evrópska fótboltanum er sparkaður jafnoft niður og Neymar en þetta kemur fram í samantekt BeSoccer Pro.

Það hefur 1040 sinnum verið brotið á brasilíska landsliðsframherjanum frá árinu 2016 en hann hefur spilað undanfarin ár með liði Paris Saint-Germain.

Það er ekki bara að Neymar sé efstur því hann er langefstur. Í öðru sæti er Lionel Messi en það hefur verið brotið 839 sinnum á honum eða meira en tvö hundruð sinnum sjaldnar.

Jafnir í þriðja sætinu eru síðan þeir Andrea Belotti hjá Torino og Jack Grealish hjá Manchester City. Það hefur verið brotið 747 sinnum á þeim.

Samantektin náði yfir leiki í fimm bestu deildum Evrópu sem og leiki með landsliðum leikmannanna. Deildirnar eru í Englandi, í Þýskalandi, á Spáni, í Frakklandi og á Ítalíu.

Neymar hefur fengið á sig mikla gagnrýni fyrir leikaraskap inn á vellinum en faðir hans fordæmi hana og sagði að Neymar þyrfti að verja sig fyrir síbrotum inn á vellinum.

Þessi tölfræði sýnir að það er mikið brotið á honum en hluti af skýringunni er örugglega sú að Neymar vill vera með boltann og hann vill sóla andstæðinga sína. Það eykur líkurnar á því að þeir sparki hann niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×