„Gríðarlega alvarleg innrás, sorgleg sviðsmynd sem er að teiknast upp, sú versta sem maður gat ímyndað sér; dauðsföll, hörmungar, fólk á flótta, logandi fjölbýlishús, sprengibrot að rigna yfir íbúabyggðir. Þetta er bara hroðaleg staða,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við fréttastofu í gær.
Hann segir þó að ekki hafi verið rætt af „neinni alvöru“ að slíta stjórnmálasambandi við Rússa eða vísa sendiheirra þeirra hér á landi aftur heim.
„Svona almennt séð myndi ég kannski segja að það væri kannski eitt af því síðasta sem menn myndu vilja gera, vegna þess að við höfum verið talsmenn þess að „tal-sambandið“ skipti á endanum öllu máli, sama hversu slæm staðan sé. En mér finnst alls ekki hægt að útiloka að staðan þróist á svo vondan veg að menn grípi til einhverra slíkra úrræða til þess að koma með skýrum hætti skilaboðunum á framfæri. En við höfum ekki tekið neina slíka ákvörðun enn þá.“
Fjármálaráðherra segir þó alveg ljóst að innrásin muni koma til með að hafa áhrif á stjórnmálasamband Íslendinga og Rússa.
„Ég held að við hljótum að horfa á samskipti við Rússland í nýju ljósi vegna þessara atburða. Og við þurfum að velta því til dæmis fyrir okkur hvort að við getum verið jafnafslöppuð eins og menn hafa lengi verið yfir því að hér séu rússneskir kafbátar að sveima í kringum landið, eða rússneskar herþotur að rjúfa lofthelgina án leyfis - eins og ítrekað gerist.
Núna sjáum við í andlit sem við kannski áttum ekki alveg von á og bárum með okkur von í brjósti um að menn myndu ekki sýna þessa árásargirnd. En hún hefur núna birst okkur og þá held ég að við verðum að velta því fyrir okkur hvaða þýðingu það hefur, að þessi umsvif séu allt árið um kring, alveg í okkar næsta nágrenni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.