Tilþrifamyndbandið með Jordan kveikti nefnilega verulega í stærstu stjörnu mótherjanna sem fór á mikið flug eftir að hann sjá taktana með Jordan.
Michael Jordan er að flestum talinn vera besti körfuboltamaður allra tíma en auk þess að skila titlum, tölfræði og verðlaunum í hús þá var hann mikill tilþrifakarl.
Hann er líka fyrirmynd margra leikmanna og það bættist örugglega ný kynslóð í hópinn þegar heimildarmyndin „The Last Dance“ var sýnd í miðjum kórónuveirufaraldri og þegar enginn körfubolti var í gangi í heiminum.
Ja Morant er ein af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar í dag en hann fæddist ekki fyrr en í ágúst 1999 eða rúmu ári eftir að Jordan vann sinn sjötta og síðasta titil með Chicago Bulls.
Morant er á þriðja tímabili með Memphis Grizzlies en hefur tekið mikið stökk á þessu tímabili þar sem hann er með 27,1 stig að meðaltali í leik eftir að hafa skorað 17,8 og 19,1 stig í leik á fyrstu tímabilunum sínum.
Í umræddum leik þá var Morant kominn með sextán stig í hálfleik sem er alls ekki slæmt en þá sá hann myndbandið góða.
„Ég sá Michael Jordan myndbandið sem þeir sýndu í leikhléinu og það kom mér í gang,“ sagði Ja Morant. Hann skoraði alls 30 stig í seinni hálfleiknum þar sem hann hitti úr 8 af 14 skotum utan af velli og 13 af 15 vítum sínum.
Memphis Grizzlies endaði á því að vinna leikinn með sex stigum en lykillinn að því var þriðji leikhlutinn þar sem Morant skoraði tuttugu stig eftir að hafa hitt úr sex af sjö skotum sínum.