Alþjóða ólympíunefnd fatlaðra hafði leyft Rússum og Hvít-Rússum að keppa á Vetrarólympíumótinu í Peking en ekki undir merkjum sinna þjóða.
Sú ákvörðun mæltist ekki vel fyrir og henni hefur nú verið snúið við. Íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fær því ekki að keppa á Vetrarólympíumótinu í Peking sem verður sett á morgun. Keppni hefst svo á laugardaginn.
Alls átti 71 keppandi frá Rússlandi og tólf frá Hvíta-Rússlandi að keppa á Vetrarólympíumótinu í Peking.
Íþróttahreyfingin hefur beitt Rússa umtalsverðum refsiaðgerðum undanfarna daga. Rússlandi var til að mynda hent út úr umspili fyrir HM 2022 og rússneskum félagsliðum meinað að taka þátt í Evrópukeppnum í fótbolta og handbolta.