Skoðun

Ein­tómt bla, bla, bla um lofts­lags­mál!

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Ríkisstjórnin ætlar að setja Íslandi sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, samkvæmt stjórnarsáttmála. Illa hefur gengið að fá skýringar á því hvernig það markmið muni líta út. Svo illa raunar, að það stendur opinberri umræðu um loftslagsmál fyrir þrifum hversu óljós markmið ríkisstjórnarinnar eru.

Í desember spurði ég umhverfisráðherra í þingsal hvernig hann ætlaði að útfæra nýja 55% markmið ríkisstjórnarinar. Þá sagðist hann vera of nýr í embætti til að úttala sig um það, enda þyrfti líka samráð og allskonar. Í febrúar spurði ég umhverfisráðherra síðan aftur út í þetta í sérstakri umræðu um loftslagsmál, en fékk aftur óskýr svör. Í framhaldinu lagði ég fram skriflega fyrirspurn. Svarið barst í dag - og er eiginlega sjokkerandi fyrir værukærðina sem það lýsir.

Spurningin er í grunninn einföld: Hvenær ætlar ríkisstjórnin að senda nýjar prósentutölur til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna?

Ríkisstjórnin segist setja loftslagsmál í forgang, en sá forgangur sýnir sig svo sannarlega ekki þegar kemur að uppfærslu á meginmarkmiðunum gagnvart loftslagssamningnum. Svarið sýnir að varðandi þetta grundvallaratriði ætlar stjórnin að dunda sér í ótilgreindan tíma við að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og „í framhaldinu verður tekin ákvörðun varðandi tilkynningu gagnvart loftslagssamningnum“.

Hver sem vonuðust til að í stjórnarsáttmálanum væru ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, sem yrði fylgt hratt og örugglega eftir, þau munu seint fá þá ósk uppfyllta. Enda kannski ekki furða, þegar tveir af þremur stjórnarflokkum voru með allt niðrum sig í Sólinni, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir Alþingiskosningar. Þegar sóðaflokkunum er hleypt í ríkisstjórn, þá verður stefnan sóðaleg.

Greta Thunberg hvatti stjórnmálaleiðtoga heimsins til að hætta þessu stöðuga „bla, bla, bla“ í loftslagsmálum. Svar umhverfisráðherra um landsmarkmið í loftslagsmálum er hið gagnstæða – hann gerir atlögu að Íslandsmeti í bla-bla-bla-i.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×