„Þetta er ósigur fyrir Háskóla Íslands og fræðastarf í landinu,“ segja þau Henry Alexander, Sólveig Anna og Skúli.
Gagnrýni sína á rektor setja þau fram í grein sem þau birtu á Vísi nú rétt í þessu. Siðanefndin sagði af sér 10. febrúar en í afsagnarbréfi sem sent var á lokaðan hóp tóku Henry Alexander, Sólveig Anna og Skúli það fram að þau myndu ekki tjá sig frekar til að skaða ekki framgang málsins. Þau höfðu þá haft til umfjöllunar kæru Bergsveinn Birgisson rithöfundur sem hefur sakað Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um að hafa, í nýlegri bók sinni Eyjan hans Ingólfs, ekki vísað tilhlýðilega til hugmynda sinna sem hann hafði sett fram í bók sinni Leitinni að svarta víkingnum.

En aðstæður urðu með þeim hætti að þau telja sig nauðbeygð til að rjúfa þögn sína.
„Það var fráfarandi nefnd mikil vonbrigði í hvaða farveg málið fór eftir afsögnina. Fréttavefur Morgunblaðsins birti til að mynda frétt skömmu síðar þar sem meðal annars komu fram upplýsingar sem Bergsveinn hafði ekki haft aðgang að. Upplýsingarnar gátu aðeins hafa komið annað hvort frá Ásgeiri eða skrifstofu rektors Háskóla Íslands. Þær komu ekki frá fráfarandi siðanefnd,“ segir í greininni.
Rektor gefið villandi mynd af stöðu mála
Rakið er að rektor hafi ítrekað tjáð sig í í fjölmiðlum með yfirlýsingum sem gáfu villandi mynd af því sem gerst hafði:
„Ásgeir Jónsson birti svo í framhaldinu bæði greinargerð til siðanefndar (þegar hún hafði sagt af sér) og ýmsar hugleiðingar sínar um málið. Það gerði hann meðal annars á Facebook síðu sinni þar sem hann er skilmerkilega titlaður bæði seðlabankastjóri og dósent við Háskóla Íslands.“
Í grein sinni rekja þau þrjú eðli siðanefnda, þær séu ekki settar á fót til að vera vettvangur tilfallandi og handahófskenndra skoðana nefndarmanna. Þær vinna eingöngu eftir þeim siðareglum sem stofnanir hafa sett sér og taka ekki fyrir önnur erindi en þau sem vísa nákvæmlega og á rökstuddan hátt í reglurnar.
„Það er því ógerlegt að taka undir með Ásgeiri Jónssyni sem líkir því við „opið Pandóru-box ef allir gætu kært orð og athafnir seðlabankastjóra og forseta til Siðanefndar HÍ.“ Líklega er þarna um að ræða vanskilning Ásgeirs á hlutverki og eðli siðareglna sem hann hefur þó gengist undir sem starfsmaður Háskóla Íslands.
Siðareglur Háskóla Íslands fjalla til dæmis ekki um vaxtaákvarðanir og því er sjálfstæði Seðlabanka Íslands tryggt þótt bankastjóri sé einnig starfsmaður Háskóla Íslands,“
segir í greininni og ekki örgrannt um að þarna megi greina háðskan tón.
Tilraun til að afvegaleiða umræðuna
Ljóst má vera af lestri greinarinnar að siðanefndarfólkið telur sig hafa mátt sæta vanvirðu af hálfu Jóns Atla rektors.
„Þegar rektor hafnar því að hafa haft afskipti af máli seðlabankastjóra virðist sem honum sé ekki ljóst hvað hann hefur aðhafst. Er rektor hafði tjáð Ásgeiri Jónssyni að samkvæmt eigin skoðun sinni væri Ásgeir ekki í ráðningarsambandi við Háskóla Íslands og lyti ekki lengur stjórn eða boðvaldi hans sendi Ásgeir siðanefndinni bréf um að málinu væri sjálfhætt. Hér hafði rektor tekið fram fyrir hendur siðanefndarinnar en hún vissi fyrst eftirá um þessi samskipti hans og Ásgeirs. Þetta er megininntak þess trúnaðarbrests sem setti nefndinni engan annan kost en segja af sér.“
Siðanefndarfólki segir það ekki standast skoðun að Ásgeir sé undanþeginn siðareglum Háskóla Íslands þó hann sé í launalausu leyfi og þau hafna því alfarið að ekki hafi legið til grundvallar lögfræðilegt álit á einmitt því.
„Engin málsmetandi lögfræðimenntuð manneskja, svo siðanefndin viti til, hefur haldið öðru fram en að um ráðningarsamband sé að ræða þegar einstaklingur tekur launalaust leyfi.
Ásgeir Jónsson segir að um „þekkingarleysi“ sé að ræða hjá nefndinni en það er öðru nær. Ágreiningurinn snýst ekki um það hvort ráðningarsamband sé til staðar eða ekki. Allt tal um slíkt er tilraun til að afvegaleiða umræðuna,“ segir í greininni.
Telja upplegg Ásgeirs fráleitt
Þá er vitnað til opins bréfs Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar um málið sem sagði fáránlegt af rektor að bjóða upp á þann möguleika að „að fræðimenn háskólans geti skipulagt vinnu sína þannig að þeir taki sér launalaust leyfi þegar þeir ætla sér að stunda einhvern fræðilegan ósóma og komið síðan til baka úr leyfinu með hreinan skjöld af því enginn hafði heimild til þess að kanna hvort ásakanir um ósómann væru sannar eða lognar.“
Þremenningarnir segja rök Ásgeirs Jónssonar snúast fyrst og fremst um að hann sé seðlabankastjóri og þess vegna gangi ekki að siðanefndin takið málið fyrir. „Honum virðist síður vera umhugað um óbreytta háskólaborgara. Við skulum láta hugmyndir Ásgeirs um eigið hlutverk (sem hann líkir við embætti forseta lýðveldisins) liggja milli hluta, en siðanefndin var ákveðin í að láta þær ekki hafa áhrif á sig.“
Greinina í heild sinni má finna hér neðar, í tengdum greinum.