Talið er að ein milljón Úkraínumanna sé þegar á flótta eftir innrás Rússa í landið sem hófst fyrir rúmri viku. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fundaði með innanríkisráðherrum ríkja Evrópusambandsins í gær. Þar varð niðurstaðan að þjóðirnar myndu virkja ákvæði til að auðvelda flóttafólki að finna sér tímabundinn samastað.
„Þetta eru sérstakar aðstæður sem kallast fjöldaflótti. Við erum auðvitað þegar farin að sjá að það slagar upp í milljón, tala flóttafólks frá Úkraínu. Það þýðir í raun að þessum almennu ferlum er vikið til hliðar og við gerum ráð fyrir að taka á móti því fólki samkvæmt þessu ákvæði um fólk á flótta.“
Snorri Másson ræddi við Katrínu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Fólkið geti svo í framhaldinu sótt um varanlegt dvalarleyfi þegar fram líði stundir.
„Já, að sjálfsögðu. Þetta er þá tímabundið leyfi. Það er þannig að þetta eru einstakar aðstæður í Evrópu. Það er samhljómur. Svo voru að berast skilaboð frá Bandaríkjunum um tilslakanir í þessa veru. Gerum ráð fyrir því að ef spár Flóttamannastofnunar ganga eftir getum við séð margar milljónir á flótta.“
Þá var Katrín spurð út í stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins NATO.
„Atlantshafsbandalagið byggir á þeirri forsendu að ef ráðist er á eitt ríki innan bandalagsins þá sé brugðist við því, því til varnar. Nú er Úkraína ekki innan bandalagsins og það er ástæðan fyrir því að Atlantshafsbandalagið hefur ekki beitt sér á sviði hernaðar. Það sem Atlantshafsbandalagið hefur verið að gera er að styrkja varnir bandalagsríkjanna, sérstaklega í austurhluta bandalagsins. Það hefur verið stefna þess hingað til í þessu máli.“