Erlent

Ó­víst hvort Rússar virði vopna­hlé á allri út­göngu­leiðinni

Árni Sæberg skrifar
Þúsundir streyma nú frá borginni Volnovakha. Þessi mynd þaðan er reyndar tekin árið 2019.
Þúsundir streyma nú frá borginni Volnovakha. Þessi mynd þaðan er reyndar tekin árið 2019. Omar Marques/SOPA Images/

Unnið er að því að rýma borgirnar Maríupol og Volnovakha. Samið hefur verið um vopnahlé á ríflega tvö hundruð kílómetra leið frá borgunum til Zaporizhzhia í norðri en borgarráð Maríupol efast um að Rússar efni samninginn að fullu.

Samið var um vopnahlé á leiðinni frá Maríupol og Volnovakha til Zaporizhzhia í norðri. Leiðin liggur um borgirnar Nikolske, Rozivka, Polohy, og Orikhiv. Leiðin er um 227 kílómetrar frá Maríupol og ætti undir venjulegum kringumstæðum að taka um þrjár klukkustundir á bíl. Ljóst er að leiðin verður seinfarnari en venjulega þegar hundruðir þúsunda flóttamanna fara hana á sama tíma.

Borgarráð Maríupol segir Rússa ekki virða umsamið vopnahlé eftir allri leiðinni sem stendur. „Við eigum í viðræðum við Rússa til að staðfesta að vopnahlé verði virt að fullu,“ segir í tilkynningu borgarráðsins.

Unnið er að þvi að koma um tvö hundruð þúsund manns frá hafnarborginni Maríupol í dag og um fimmtán þúsund frá Volnovakha.

Anton Herashchenko, aðstoðarinnaríkisráðherra Úkraínu, segir að samið verði um tímabundið vopnahlé á fleiri stöðum til að gera almennum borgurum kleift að flýja.

„Það verða klárlega gerðir fleiri samningar á borð við þessa fyrir öll önnur svæði,“ hefur Reuters eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×