Enski boltinn

Aston Villa vann stórsigur | Ivan Toney skoraði þrennu í öruggum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aston Villa vann öruggan sigur gegn Southampton í dag.
Aston Villa vann öruggan sigur gegn Southampton í dag. Eddie Keogh/Getty Images

Alls voru fimm leikir í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta að klárast nú rétt í þessu.

Aston Villa vann öruggan 4-0 sigur gegn Southampton á Villa Park þar sem Ollie Watkins og Douglas Luiz sáu til þess að liðið fór með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn.

Það voru svo þeir Philippe Coutinho og Danny Ings sem skoruðu mörk Aston Villa í síðari hálfleik með stuttu millibili og tryggðu um leið liðinu öruggan 4-0 sigur.

Aston Villa stökk upp um tvö sæti með sigrinum og situr nú í ellefta sæti deildarinnar með 33 stig eftir 26 leiki, tveimur stigum minna en Southampton sem situr í níunda sæti.

Brentford vann góðan 3-1 útisigur gegn Norwich í leik þar sem Ivan Toney skoraði þrennu. Hann kom Brentford yfir eftir rúmlega hálftíma leik og fullkomnaði svo þrennu sína úr tveimur vítaspyrnum með stuttu millibili í síðari hálfleik áður en Teemu Pukki minnkaði muninn fyrir Norwich í uppbótartíma.

Þá vann Newcastle mikilvægan 2-1 heimasigur gegn Brighton, en Newcastle er nú sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið og styttist í að ríkasta félag heims geti kvatt falldrauginn endanlega niður. Ryan Fraser og Fabian Schar skoruðu mörk Newcastle, en Lewis Dunk minnkaði muninn fyrir Brighton.

Að lokum vann Crystal Palace góðan 2-0 útisigur gegn Wolves þar sem Jean-Philippe Mateta og Wilfried Zaha sáu um markaskorun gestanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×