Fótbolti

Tólf árum eftir að hann heimsótti strák á barnaspítala mættust þeir á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sacha Kljestan og Chris Hegardt sjást hér eftir að þeir skiptust á treyjum í leikslok.
Sacha Kljestan og Chris Hegardt sjást hér eftir að þeir skiptust á treyjum í leikslok. Twitter/Major League Soccer

Charlotte FC spilaði sinn fyrsta heimaleik í MLS-deildinni í bandaríska fótboltanum um helgina og þar hittust tveir leikmenn inn á vellinum sem höfðu hitt hvorn annan við allt aðrar aðstæður fyrir meira en áratug síðan.

Eftir leikinn þá skiptust þeir Sacha Kljestan hjá LA Galaxy og Chris Hegard hjá Charlotte FC á treyjum sem var mjög táknræn stund. Kljestan hafði rifjað það upp fyrir leikinn þegar þeir hittust fyrir tólf árum á barnaspítala í Los Angeles.

Kljestan var leikmaður Chivas árið 2010 og heimsótti spítalann. Þar hitti hann átta ára strák sem var að berjast við krabbamein. Kljestan færði stráknum bandarísku landsliðstreyjuna að gjöf og eyddi tíma með honum og fjölskyldu hans.

Veikindi Hegard höfðu uppgötvast eftir fótboltaleik en hann fór á endanum í gegnum sex lyfjameðferðir og fékk nýja lifur. Hegard náði sér sem betur fer og það sem meira er hann hélt áfram að spila fótbolta.

Nú er hann tvítugur og er kominn alla leið í MLS-deildina. Hegard spilaði með Georgetown í háskólaboltanum en en Charlotte FC fékk hann í skiptum við Tacoma Defiance í USL-deildinni.

„Það sem má læra af þessari sögu er að það borgar sig að vera góð manneskja. Það kostaði mig ekkert að vera vinalegur við hann og fjölskyldu hans þennan dag og ef það gaf honum bara eitt prósent meiri von eða fékk hann til að brosa á erfiðum tíma þá var það þess virði,“ sagði Sacha Kljestan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×