Fótbolti

Mbappé meiddist á æfingu: Gæti misst af stór­leiknum gegn Real

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé gæti misst af stórleik Real Madríd og París Saint-Germain.
Kylian Mbappé gæti misst af stórleik Real Madríd og París Saint-Germain. John Berry/Getty Images

Kylian Mbappé meiddist á æfingu París Saint-Germain í dag. Alls óvíst er hvort hann nái síðari leik liðsins gegn Real Madríd í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. PSG leiðir 1-0 í einvíginu eftir að Mbappé skoraði sigurmarkið í fyrri leik liðanna.

Franski sóknarmaðurinn meiddist á æfingu fyrr í dag samkvæmt fjölda heimilda erlendis. Ljóst er að Real myndi fagna því ef hann yrði ekki með í leik liðanna á miðvikudaginn kemur en fyrir bæði Mbappé sem og PSG yrði það mikið áfall.

Real Madríd gerði allt sem í valdi sínu stóð til að festa kaup á Mbappé síðasta sumar og virðist allt benda til að hann verði leikmaður þeirra þegar tímabilinu lýkur en samningur hans við PSG rennur þá út.

Hann gerði mögulegum yfirmönnum sínum þó enga greiða er Real mætti til Parísar þann 15. febrúar. Mbappé skoraði stórglæsilegt mark sem reyndist sigurmark leiksins eftir að hafa verið allt í öllu í sóknarleik liðsins. 

PSG er því með nauma forystu fyrir síðari leikinn sem fram fer á Santiago Bernabeuu á miðvikudagskvöld. Það er deginum ljósara að PSG er veikara án hins 23 ára gamla Mbappé sem hefur skorað 24 mörk á leiktíðinni og lagt upp 17 til viðbótar í aðeins 34 leikjum.

Leikur Real Madríd verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun hefst klukkan 19.15 og leikurinn sjálfur svo klukkan 20.00.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×