Viðskipti innlent

Breytingar gerðar á framkvæmdastjórn Marel

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nýir meðlimir framkvæmdastjórnar hófu störf í dag.
Nýir meðlimir framkvæmdastjórnar hófu störf í dag. Vísir/Hanna

Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Marel, sem taka gildi frá og með deginum í dag. Fram kemur í tilkynningu frá Marel að markmið breytinganna sé að skerpa á skilvirkni í rekstri, stjórnun lykilfjárfestinga til að auka hraða og sveigjanleika og styðja við vaxtarmarkmið.

Linda Jónsdóttir tekur við stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og mannauðs. Hún mun leiða lykilfjárfestingar í innviðum til að styrkja undirstöður í rekstri og aðfangakeðju og styðja við rekstrarmarkmið. 

Stacey Katz tekur við stöðu fjármálastjóra og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn. Þá kveður Folkert Bölger, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra framleiðslu og innkaupa, Marel. 

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, í tilkynningunni að viðskiptavinir fyrirtækisins séu stórhuga í fjárfestingum til að umbreyta matvælavinnslu og auka sjálvirknivæðingu auk þess að ná fram auknum sveigjanleika og skölun rekstrar. Það kristallist í 22% aukningu pantana á síðasta ári. 

Hann segir að Linda hafi sannað leiðtogahæfileika sía og komi með mikla reynslu í farteskinu í nýtt starf. Hún hafi áunnið sér traust og virðingu starfsmanna sinna á þeim þrettán árum sem hún hafi starfað hjá Marel og leitt svið fjármála, upplýsingatækni, starfsmannamála og áður fjárfestatengsla og fjárstýringar. 

Þá hafi Stacey Katz unnið náið með framkvæmdastjórn Marel og öðrum lykilstjórnendum félagsins síðustu átta ár, nú síðast sem yfirmaður reikningsskila. Hún hafi sýnt lofandi leiðtogahæfileika og hafi mikinn eldmóð og metnað fyrir Marel. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×