Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hafi kynnt minnisblað á ríkisstjórnarfundi um afturkalla undanþágu sem hefur verið í gildi fyrir rússneska togara til löndunar og umskipunar í íslenskum höfnum.
Erlendum skipum er samkvæmt lögum veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands óheimilt að koma til hafnar á Íslandi og fá hér þjónustu stundi það veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnun, án þess að gerður hafi verið milliríkjasamningur.
Heimilt er hins vegar í lögum að veita undanþágu vegna slíkra veiða og hefur slík undanþága verið í gildi frá árinu 1999 fyrir rússneska togara sem stunda veiðar á karfa.
„Fram til þessa hefur verið litið til heildarviðskiptahagsmuna við Rússland við mat á þessari undanþágu. Á undanförnum árum hefur ítrekað komið til skoðunar að afturkalla undanþáguna. Með hliðsjón af nýju mati á hagsmunum Íslands í samskiptum við Rússland vegna innrásar Rússlands í Úkraínu hefur ráðherra tekið ákvörðun um að afturkalla þessa undanþágu,“ segir í tilkynningu Stjórnarráðsins.