Fótbolti

Leikur Wales og Austurríkis fer fram á tilsettum tíma þrátt fyrir frestun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Velska fótboltalandsliðið mætir því austurríska þann 24. mars í umspili fyrir HM.
Velska fótboltalandsliðið mætir því austurríska þann 24. mars í umspili fyrir HM. Ryan Pierse/Getty Images

Leikur Wales og Austurríkis í umspili um laust sæti á HM í Katar í desember mun fara fram á tilsettum tíma þann 24. mars þrátt fyrir að leik Úkraínu og Skotlands hafi verið frestað.

Leik Úkraínu og Skotlands, sem átti einnig að fara fram þann 24. mars, var frestað eftir innrás Rússa í Úkraínu. Leikirnir tveir eru undanúrslitaleikir og sigurvegarar leikjanna mætast svo í hreinum úrslitaleik um laust sæti á HM.

„FAW (e. Football Association of Wales) styður ákvörðun FIFA um að frestun leiksins, stendur við bakið á Úkraínumönnum og ítrekar um leið að við fordæmum aflbeitingu og ódæðisverk Rússa,“ segir í tilkynningu frá velska knattspyrnusambandinu.

Það lið sem hefur betur í leik Wales og Austurríkis gæti þurft að bíða í nokkra mánuði áður en vitað er hverjir andstæðingar þeirra verða í úrslitaleiknum um sæti á HM. Liðið þarf þá einnig að bíða alla þessa mánuði áður en vitað er hvenær úrslitaleikurinn getur farið fram.

Viðræður standa nú yfir um nýja tímasetningu fyrir leik Skotlands og Úkraínu, en landsliðsglugginn í júni þegar keppt er í Þjóðardeildinni, þykir líklegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×