Erlent

Sprengjum varpað á barnaspítala í Mariupol

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hversu margir létust en forsetinn segir börn meðal þeirra sem liggja í rústunum. 
Ekki liggur fyrir hversu margir létust en forsetinn segir börn meðal þeirra sem liggja í rústunum.  AP

Barnaspítali og meðgöngudeild í úkraínsku borginni Mariupol er nú í rústum eftir að sprengjum var varpað á borgina í dag en Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir rússneska hermenn hafa verið að verki. Úkraínumenn hafa sakað Rússa um að brjóta gegn vopnahléi sem komið var á í dag. 

Í færslu á Twitter birtir forsetinn myndskeið af spítalanum og umhverfi hans. Hann segir að um voðaverk sé að ræða og fullyrðir að börn liggi ásamt fullorðnum undir rústunum.

Ekki hefur verið staðfest hversu margir létust í árásinni en yfirvöld í Mariupol segja þetta ekki í fyrsta sinn sem sprengjum hefur verið varpað á spítalann. Af myndskeiðum sem nú ganga á samfélagsmiðlum að dæma er eyðileggingin gríðarleg í borginni.

Dmytru Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir árásina á barnaspítalann í Mariupol hafa verið skelfilegan stríðsglæp og ítrekar kröfu yfirvalda um að lofthelgin yfir Úkraínu verði lokað.

Kuleba sakaði Rússa fyrr í dag um að halda rúmlega 400 þúsund manns gíslingu í borginni þar sem sprengingar voru víða. Erfitt hefur reynst að grafa þá sem hafa látist undanfarna daga í Mariupol og hafa yfirvöld því þurft að koma líkum fyrir í stórri fjöldagröf. 

Úkraínumenn hafa sakað Rússa um að brjóta gegn vopnahléi sem var meðal annars komið á við Mariupol. 

Samið var um tólf tíma vopnahlé, sem hófst klukkan sjö að íslenskum tíma, í sex borgum í Úkraínu til að auðvelda mannúðarstarf og greiða fyrir brottflutningi fólks. Rússar hafa sömuleiðis sakað Úkraínumenn um að brjóta gegn vopnahléinu.

Að því er kemur fram í frétt BBC hefur brottflutningur almennra borgara tafist víðar en í Mariupol, til að mynda í austurhluta Karkív þar sem sprengingar hafa heyrst. Þá greinir Reuters frá því að um 50 rútum hafi verið meinað að fara frá bænum Bucha rétt utan við Kænugarð.

Í öðrum borgum hefur gengið betur, til að mynda í Sumy og Enerhodar. Alls hafa fleiri en tvær milljónir manna flúið Úkraínu frá því að innrásin hófst fyrir tæplega tveimur vikum.


Tengdar fréttir

Ísraelar segja viðræður um vopnahlé þokast í rétta átt

Axios hefur eftir háttsettum ísraelskum embættismönnum að viðræður milli Rússa og Úkraínumanna um vopnahlé þokist í rétta átt. Báðir eru sagðir hafa slakað á í afstöðu sinni en utanríkisráðherrar ríkjanna funda í Tyrkalandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×